Home Fréttir Í fréttum Hagnaður Eikar jókst um 110 milljónir

Hagnaður Eikar jókst um 110 milljónir

137
0
Garðar Hannes Friðjónsson

Hagnaður fasteignafélagsins Eikar á síðasta ári nam 1.336 milljónum króna. Það er um 110 milljónum meiri hagnaður en árið áður. Rekstrartekjurnar næstum tvöfölduðust, fóru úr 2.029 milljónum króna í 3.961 milljón króna. Ástæðan er sú að Eik sameinaðist Landfestum og keypti einnig EF1.

<>

Eignasafn Landfesta ehf. er alls um 98 þúsund fermetrar og samanstendur af 35 eignum. Eignasafn EF1 hf. er alls um 60 þúsund fermetrar og meðal eigna félagsins eru Smáratorg 1 og Turninn að Smáratorgi 3 í Kópavogi, auk verslunarmiðstöðvarinnar Glerártorgs og fasteigna við Dalsbraut 1 á Akureyri.

Við þessi viðskipti með EF1 og Landfestar fóru eignir Eikar úr 24,6 milljörðum króna í 62,3 milljarða króna. Skuldirnar þrefölduðust einnig, fóru úr 16,3 milljörðum í 46,7 milljarða.
Í ársreikningi Eikar kemur fram að stjórn félagsins leggur til að greiddur verði 580 milljóna króna arður til hluthafa á árinu 2015 en ekki var greiddur arður á síðasta ári.

Garðar Hannes Friðjónsson, forstjóri félagsins, sagði í samtali við Markaðinn á dögunum að nú væri lögð áhersla á arðsemi og þjónustu við hluthafa, fremur en frekari stækkun. „Stjórn hefur sett sér arðgreiðslustefnu um að greiða árlega út arð sem nemur 35% af handbæru fé frá rekstri,“ sagði Garðar.

Eins og fram hefur komið er stefnt að hlutafjárútboði Eikar nú í apríl og að í framhaldinu verði félagið skráð í Kauphöll. Tveir stærstu núverandi eigendur í félaginu eru Arion banki með liðlega 14 prósenta hlut og Lífeyrissjóður verslunarmanna með 10,5 prósenta hlut. Í útboðinu mun Arion selja hlut sinn.

Heimild: Vísir.is