Home Fréttir Í fréttum Endurnýjun flóðlýsingar kostar 220 milljónir

Endurnýjun flóðlýsingar kostar 220 milljónir

71
0

Endanlegur kostnaður við endurnýjun flóðlýsingar á Laugardalsvelli mun nema um 220 milljónum króna. UEFA, knattspyrnusamband Evrópu, greiðir fjárfestinguna að fullu en Reykjavíkurborg eignast hana að lokum.

<>

Upphaflega stóð til að borgin myndi greiða… Sökum mikillar tímapressu frá UEFA, vegna leikja í undankeppni Evrópumótsins í Frakklandi, ákvað sambandið að greiða fjárfestinguna að fullu. „UEFA setti mikla pressu á okkur að laga lýsinguna fyrir haustið 2014,“ segir Geir Þorsteinsson, formaður KSÍ. „Það voru þarna tveir stórir leikir um haustið gegn Hollandi og Tyrklandi og þeir töldu gömlu lýsinguna, sem var komin til ára sinna, ekki nægilega góða,“ segir Geir en segir að ekki hafi verið hægt að tryggja rekstraröryggi eldri ljósbúnaðar þar sem varahlutir voru ófáanlegir.

Vegna kröfu UEFA um endurnýjun var hafist tafarlaust handa við að setja upp ný ljós. Fljótlega kom í ljós að eldri möstur á vellinum myndu ekki bera nýjan ljósabúnað. Því þurfti að ráðast í framkvæmdir á ný árið 2015 þar sem ný möstur voru sett upp. „Ljósin voru sett upp að hluta en verkfræðingar töldu að gömlu möstrin myndu ekki halda nýju ljósunum til lengdar,“ segir Geir en fjöldi kastara fór úr 30 í 50 á hverju mastri.

Kostnaður vegna ljósanna var 77,6 milljónir en vegna þess að reisa þurfti ný möstur og setja ljósin upp að nýju bættust við 131,5 milljónir króna á síðasta ári. Er því heildarkostnaður við framkvæmdina orðinn 209,1 milljón króna en útlit er fyrir að kostnaður aukist enn á árinu.

„Það gætu bæst við um tíu milljónir þar sem það þarf að endurnýja búnað í tengiskáp ljósanna,“ segir Geir en eldri búnaður hitnar við notkun nýrri og öflugri ljósa. Geir segir óheppilegt þurft hafi að framkvæma hluta verksins tvívegis. „Það er dálítið blóðugt en það var engin önnur leið. Út af þessari kröfu UEFA um að skipta út ljósabúnaði fyrir leikina haustið 2014 og þeirri miklu tímapressu sem var á okkur.“

Geir segir að Reykjavíkurborg eignist fjárfestinguna sem eigandi Laugardalsvallar. „Samningur okkar við borgina er þess eðlis. Borgin er eigandi að öllum framkvæmdum sem við ráðumst í hérna á vellinum.“

Heimild: Rúv.is