Áformað er að stækka Keflavíkurflugvöll um á fjórða hundrað þúsund fermetra eða sem nemur ríflega fimmföldum grunnfleti Smáralindar. Þetta má lesa úr skýrslu VSÓ vegna umhverfismats fyrirhugaðra framkvæmda.
Með þessari uppbyggingu breytist ásýnd flugstöðvarinnar. Gamla flugstöðin með rauðlituðu klæðningunni verður heldur smá í samanburði við allar þær byggingar sem stendur til að reisa.
Meðal annars eru áform um að byggja nýja austurálmu, stækka suðurbyggingu til austurs og breikka landganginn milli suður- og norðurhluta flugstöðvarinnar svo úr verði tengibygging. Þá verður norðurbyggingin, gamla flugstöðin, stækkuð til suðurs. Svonefndur austurfingur, austur af austurálmunni, verður allt að 80 þúsund fermetrar.
Tvö bílastæðahús
Þá á að byggja nýjan landgang til austurs í áföngum. Fullbyggður á hann að rúma allt að 17 flugvélahlið með landgöngubrúm. Samhliða stækkun flugstöðvarinnar er ráðgert að reisa tvö bílastæðahús sem verða samtals allt að 100 þúsund fermetrar.
Með stækkun flugstöðvarinnar á að mæta væntri fjölgun farþega á næsta áratug. Farþegaspá Isavia gerir ráð fyrir að 11,4 til 13,6 milljónir farþega muni fara um Keflavíkurflugvöll árið 2032.
Lesa má meira um málið í Morgunblaðinu í dag.
Heimild: Mbl.is