Home Fréttir Í fréttum Flateyri: snjóflóðavarnir ekki í umhverfismat

Flateyri: snjóflóðavarnir ekki í umhverfismat

121
0

Skipulags- og mannvirkjanefnd Ísafjarðarbæjar telur ekki þörf á að fyrirhugaðar snjóflóðavarnir á Flateyri fari í umhverfismat þar sem svæðið er að mestu leyti manngert. Þá telur nefndin að nægjanlega sé gert grein fyrir framkvæmdinni, umhverfi hennar, umhverfisáhrifum, mótvægisaðgerðum og vöktun eftir því sem við á.

<>

Verkís hefur lagt fram fyrirspurn um matsskyldu og greinargerð um framkvæmdirnar þar sem fjallað er um möguleg umhverfisáhrif framkvæmdanna. Heildarefnisþörf framkvæmdanna er um 300 þúsund rúmmetrar og og samanlagt heildarflatarmál efnistökusvæða og annarra raskaðra svæða um 110 þús. m2.

Sumarið 2023 er stefnt að framkvæmdum við áframhaldandi eflingu varnanna á grundvelli frumathugunarskýrslu, ef tilskilin leyfi fást. Heildarverktími er áætlaður 3 ár og stefnt að því að byrja á uppbyggingu keilna undan Innra-Bæjargili.

Fyrirhuguð styrking snjóflóðavarnargarðanna felst í að:
Reistar verði þrjár keiluraðir ofan núverandi leiðigarða til þess að draga úr flóðhraða í bæði iðufaldi og þéttum kjarna áður en flóð lendir á leiðigarði og aðskilja iðufald og þéttan kjarna í flóði. Keilurnar verða 27 og 10-11 metra háar.

Þvergarður milli leiðigarða verði hækkaður og endurbyggður brattur með lítillega breyttri legu, til þess að draga úr hættu á yfirflæði stórra snjóflóða. Þvergarðurinn er í dag 10 metra hár og verður 15 metrar.
Móta flóðrás út frá Skollahvilftargarði, til þess að auka virka hæð garðsins og tryggja óhindrað rennsli snjóflóða út í sjó.
Efla vesturhlið fleygs ofan Sólbakka (eystri leiðigarður).

Byggja lágan en brattan leiðigarð ofan hafnar til þess að beina flóðum frá höfn (vestari leiðigarður).

Hafnarsvæðið verður varið með keilum ofan vegar. Til viðbótar verður reistur 5-7 m hár og brattur hafnargarður, til þess að beina flóðstraum frá Skollahvilftargarði frá höfn.

Heimild: BB.is