Home Fréttir Í fréttum Risastór heilsulind World Class í Njarðvík í startholunum

Risastór heilsulind World Class í Njarðvík í startholunum

181
0
Reiknað er með að heilsulind Björns og meðeigenda hans í Njarðvík komist í gagnið eftir þrjú ár.

„Við erum að klára endanlegan samning og stefnum að undirskrift í næstu viku,“ segir Björn Leifsson, eigandi World Class, í samtali við Mannlíf.  Hann vísar þarna til risaverkefnis World Class sem er að hefjast á næstunni.

<>

Um er að ræða World Class stöð, baðlón og heilsuhótel. Þess utan verður sjóbaðsaðstaða með gufu og heitum pottum á svæðinu sem er við sjóinn í grennd við Fitjar í Reykjanesbæ.

Björn reiknar með að opna nýju heilsulindina, sem stendur við 2400 fermetra baðlón eftir þrjú ár að óbreyttu. byggingarnar verða um 8400 fermetrar.

Teikning af væntanlegri byggingu World Class í Njarðvík.

„Við ákváðum að staðsetja okkur miðsvæðis í Reykjanesbæ þaðan sem er örstutt á flugvöllinn. Ég er fimm mínútur að aka á flugvöllinn,“ segir Björn.

Við erum með góða eiginfjárstöðu

Víst er að hin nýja heilsustöð er að róa á svipuð mið og Bláa lónið í Grindavík. Þangað tekur um hálftíma að aka frá Leifsstöð.

Sem dæmi um stærð framkvæmdarinnar þá er áætlað að kostnaðurinn verði 10 milljarðar króna. Björn segist ekki óttast kostnaðinn. Áhættan sé lítil.

„Við erum með góða eiginfjárstöðu og ráðum vel við verkefnið,“ segir hann.

Fyrir Reykjanes og þá sérstaklega Njarðvík og Keflavík mun nýja heilsuhótelið hafa gríðarlega mikla þýðingu. Björn segir að um 100 manns fái vinnu við starfsemina.

Þá er ekki búið að taka inn í reikninginn þau umsvif sem verða á framkvæmdatímanum. Hann á von á því að Íslendingar sæki í nýja lónið ekki síður en erlendir ferðamenn.

Heimild: mannlif.is