Home Fréttir Í fréttum Mastrið á Eiðum ei meir

Mastrið á Eiðum ei meir

242
0
Mynd tekin þegar efstu hlutinn féll á neðri hluta mastursins sem bognaði í kjölfarið og kubbaðist niður á jörð. Mynd AE

Laust fyrir hádegi í dag var 220 metra hátt langbylgjumastrið á Eiðum fellt og gekk sá gjörningur vonum framar að sögn sérfræðinga á svæðinu. Aðeins þurfti að skera á ein tvö stög til að þetta þriðja hæsta mannvirki landsins hrundi með brauki og bramli.

<>

„Við áttum alveg eins von á að þetta myndi gerast með þessum hætti frekar en falla í heilu lagi,“ sagði Bragi Reynisson, forstöðumaður tæknisviðs Ríkisútvarpsins, þegar mastrið var fallið. Það gekk hratt fyrir sig og einungis þurfti að klippa á tvo stálvíra áður en efsti hluti mastursins gaf sig, sá hluti slóst svo utan í neðri hluta þess sem í kjölfarið bognaði og gaf sig líka og þá kom allt ferlíkið niður.

Mynd sýnir brakið á jörðu niðri en sérfræðingar RÚV auk annarra sem komu að því að fella mastrið voru ánægðir með hvernig til tókst. Mynd AE

Fyrirfram var ekki vitað hvort mastrið myndi leggjast í heilu lagi niður eða kubbast niður eins og raunin varð en að sögn Braga var jákvætt að það féll eins og það gerði því brakið var nánast allt á einum stað sem auðveldar til muna að hreinsa svæðið og koma brotajárninu í endurvinnslu.

Allnokkur fjöldi fólks gerði sér ferð að Eiðum til að verða vitni að þessu andartaki en lögregla var á staðnum og aftraði því að fólk færi of nærri.

Mastrið, eða öllu heldur björt blikkandi ljós hátt á mastrinu, hafa í áratugi valdið fólki í sveitum í kring nokkrum óþægindum enda blikkað linnulítið allan sólarhringinn. Þá hefur hátt mastrið einnig skapað aukna hættu vegna flugs til og frá Egilsstaðaflugvelli gegnum tíðina.

Heimild: Austurfrett.is