Home Fréttir Í fréttum Nýjar lóðir við Votahvamm á Egilsstöðum lausar til úthlutunar

Nýjar lóðir við Votahvamm á Egilsstöðum lausar til úthlutunar

90
0
Mynd: Mulathing.is

Umhverfis- og framkvæmdaráð Múlaþings hefur samþykkt að auglýsa nýjar lóðir við Votahvamm á Egilsstöðum lausar til úthlutunar.

<>

Um er að ræða 19 lóðir fyrir einbýlishús, parhús/raðhús og fjölbýlishús við Fífutún og Austurtún auk einnar einbýlishúsalóðar við Ártún 18.

Lóðirnar eru aðgengilegar inn á Kortasjá Múlaþings, hakað er við “Lausar lóðir” í valstikunni til hægri. Þegar smellt er á viðkomandi lóð opnast upplýsingagluggi þar sem jafnframt er hægt að hlaða niður deiliskipulagi og lóðablaði ásamt frekari upplýsingum. En einnig er hægt að sækja um viðkomandi lóðir þar. Vakin er sérstök athygli á því að með öllum lóðarumsóknum skal fylgja staðfesting á greiðsluhæfi umsækanda frá viðskiptabanka hans.

Umsóknarfrestur er til og með 1. mars 2023 og verður lóðum úthlutað á afgreiðslufundi skipulagsfulltrúa að Lyngási 12 á Egilsstöðum, þann 7. mars klukkan 11:00. Lóðunum verður úthlutað samkvæmt ákvæðum a-liðar 3. gr. reglna um úthlutun lóða hjá Múlaþingi.

A) Ráðið felur skipulagsfulltrúa að auglýsa lóðir til umsóknar. Lóðirnar skulu vera sýnilegar á heimasíðu sveitarfélagsins. Umsóknarfrestur skal eigi vera skemmri en tvær vikur frá birtingu auglýsingar. Í auglýsingu skal koma fram staður og dagsetning opins afgreiðslufundar skipulagsmála þegar úthlutun mun eiga sér stað.
Umsækjendur geta sótt um fleiri en eina lóð, en aðeins einu sinni um hverja lóð. Hverjum umsækjanda skal aðeins úthlutað einni lóð. Hjón eða einstaklingar með sama lögheimili skulu skila sameiginlegri umsókn og teljast einn umsækjandi.
Sé um íbúðarlóðir að ræða, kemur einstaklingur eða lögaðili sem þegar hefur fengið lóð úthlutaða til byggingar, í sveitarfélaginu, án þess að lóðarleigusamningur hafi verið gerður, ekki til greina við úthlutun. Ráðið getur þó heimilað að vikið sé frá skilyrðinu ef umsækjandi sýnir fram á að hann geti byggt upp á fleiri lóðum á eðlilegum hraða, lóðir eru í mismunandi byggðakjörnum og/eða ef sérstakar ástæður mæla með því. Séu fleiri en einn umsækjandi um lóð eða lóðir í sömu úthlutun, skal dregið á milli þeirra og þeim raðað í þeirri röð sem þeir eru dregnir, þó ekki fleiri en fimm umsóknir um hverja lóð.
Þetta skal framkvæmt á opnum afgreiðslufundi skipulagsmála þar sem að lágmarki tveir starfsmenn umhverfis- og framkvæmdasviðs sitja.
Sé sami umsækjandi efstur á lista úrdráttar um fleiri en eina lóð gefst honum kostur á að velja á milli lóða innan viku frá úrdrætti. Berist ekki svar innan    tímafrests þá velur skipulagsfulltrúi lóð til úthlutunar fyrir viðkomandi og úthlutar hinni eða hinum lóðunum til næsta umsækjanda í röðinni.
Verði lóðir afgangs eftir úthlutun, skal birta þær á heimasíðu sveitarfélagsins og úthlutað samkvæmt B lið.

Lóðir verða afhentar 15. maí næstkomandi, en þá er áætlað að þeim framkvæmdum sem standa yfir við gatnagerð og veitulagnir verði lokið. Jarðvegsskipt hefur verið í götum og gangstígum og lóðir jafnaðar.

Götuhæð er 15 cm undir endanlegri hæð þar sem eftir verður að setja jöfnunarlag og malbik á götu en    áætlað er að það verði gert sumarið 2025. Tengistútar veitna, það er fráveitu, vatnsveitu, rafveitu, hitaveitu og fjarskipta- og gagnaveitum verða á  lóðamörkum og ljósastaurar komnir við götur.

Gatnagerðargjöld verða innheimt samkvæmt valinni greiðsluleið við afhendingu lóða í maí.

Frekari upplýsingar um lóðirnar og fyrirkomulag við úthlutun má nálgast hjá skipulagsfulltrúa á netfanginu skipulagsfulltrui@mulathing.is.

Heimild: Mulathing.is