Home Fréttir Í fréttum Nýjar tillögur að ofanflóðavörnum á Patreksfirði

Nýjar tillögur að ofanflóðavörnum á Patreksfirði

78
0
Vel var mætt á íbúafundinn á Patreksfirði Þórdís Sif Sigurðardóttir

Kynntar hafa verið nýjar tillögur að mannvirkjum til að verjast krapaflóðum úr Geirseyrargili á Patreksfirði. Bæjarstjórinn vonast til þess að bráðabirgðavarnir verði tilbúnar innan tveggja ára, þó lengri tíma taki að byggja varanleg mannvirki.

<>

Vesturbyggð boðaði til íbúafundar á dögunum þar sem fulltrúar Ofanflóðasjóðs kynntu meðal annars tillögur að nýjum stoðvirkjum og varnargörðum við Geirseyrargil á Patreksfirði.

Þórdís Sif Sigurðardóttir, bæjarstjóri Vesturbyggðar, segir að íbúum lítist mun betur á þessar tillögur en þær eldri, þar sem meðal annars var lagt til að grafinn yrði djúpur skurður í gegnum bæinn með háum varnargörðum.

Stóð til að grafa djúpan skurð í gegnum miðjan bæinn
Nú sé reiknað með vörnum ofar í fjallinu í framhaldi af varnargarði sem þar er og keilum þar fyrir ofan. Í garðinum verði rist sem eigi að grípa framburð úr gilinu, en hleypa leysingavatni í gegn. „Þær hugmyndir sem komu fyrst upp var að byggja háa hóla í kringum ána og gera, stundum talað um „Súez-skurð“ í gegnum bæinn. Sem hefði tvístrað honum algerlega.“

Bráðabirgðavarnir tilbúnar eftir tvö ár
Bæjaryfirvöld í Vesturbyggð hafa lagt mikla áherslu á að fá sem allra fyrst bráðabirgðavarnir við Geirseyrargil, sem tæki styttri tíma að koma fyrir en varanlegum vörnum. Þórdís segir að slíkar bráðaaðgerði hafi verið kynntar á fundinum. „Ráðherranefnd er með þetta verkefni hjá sér núna, að skoða hvort hægt sé að fara í bráðaðgerðir sem Ofanflóðasjóður lagði til í samstarfi við Veðurstofuna. Og þrátt fyrir að þetta séu bráðaaðgerðir þá tekur um tvö ár að koma þeim upp endanlega.“

Íbúarnir ánægðir með þróun mála
Og fundurinn hafi almennt verið gagnlegur. Íbúarnir hafi fengið góða kynningu bæði frá Veðurstofunni, lögreglu og fleirum. „Mér heyrðist fólk bara vera mjög jákvætt eftir fundinn, um að eitthvað væri að fara að gerast. Og að sjá þessar nýju tillögur er náttúrulega eitthvað sem skiptir mjög miklu máli,“ segir Þórdís.

Heimild: Ruv.is