Rakaskemmdir og mygla heldur áfram að finnast í skólum landsins. Í Reykjanesbæ eru fimm skólar skemmdir en bærinn mun nota tækifærið og gera frekari stækkanir og lagfæringar.
Rakaskemmdir hafa fundist í fimm skólum í Reykjanesbæ, tveimur grunnskólum og þremur leikskólum. Kjartan Már Kjartansson, bæjarstjóri, gerir ráð fyrir að framkvæmdir muni taka langan tíma en samhliða verður farið í stækkanir og frekari lagfæringar á skólunum.
Skólarnir sem um ræðir eru grunnskólarnir Myllubakkaskóli og Holtaskóli og leikskólarnir Garðasel, Heiðarsel og Gimli. Samkvæmt Kjartani eru rakaskemmdirnar og myglan langmest í grunnskólunum tveimur. Hefur hluta skólanna verið lokað og kennsla færð annað, til að mynda flutti unglingadeild Holtaskóla í menningarhúsið Hljómahöll í vikunni.
„Við erum að bregðast við öllum þessum grun með sýnatöku og aðgerðum ef að í ljós kemur að um alvarlegar skemmdir er að ræða,“ segir Kjartan Már, en rannsóknir á leikskólunum eru mun skemur á veg komnar en í grunnskólunum.
Viðgerðir eru þegar hafnar í grunnskólunum. Nokkuð er síðan skemmdirnar fundust í Myllubakkaskóla og greindi Fréttablaðið frá því í haust að farga hafi þurft öllum bókakosti bókasafns skólans vegna myglu.
„Þetta er 70 ára gömul bygging sem stendur mjög lágt í landinu,“ segir Kjartan Már um Myllubakkaskóla. Hafi byggingarreglugerðir þess tíma ekki gert jafn ríkar kröfur um jarðvegsskipti og nú er. Við hliðina á skólanum stendur skrúðgarður bæjarins og þar er tjörn. „Líklega er votlendi undir Myllubakkaskóla,“ segir Kjartan og rakinn leiti upp í bygginguna.
Margvíslegar aðrar ástæður gætu legið að baki skemmdunum, viðhald í gegnum árin kann að hafa verið ófullnægjandi og svo hafa lekir gluggar og þök verið að koma í ljós.
Skemmdirnar í leikskólunum eru minni og enn þá er unnið að því að greina þær betur. Kjartan Már nefnir að Garðasel sé 50 ára norskt timburhús, sem reist var eftir Vestmannaeyjagosið þegar fólk flúði upp á land. „Við erum að rannsaka hvort að jarðvegurinn undir skólanum hafi verið nægilega vel undirbúinn. Á þessum tíma var unnið á stuttum tíma og menn voru að flýta sér til að bregðast við,“ segir hann.
Aðspurður um kostnað segir Kjartan að þetta verði dýrt. „Þetta eru háar fjárhæðir,“ segir hann. „Örugglega mun þetta hlaupa á hundruð milljónum króna, að minnsta kosti, vegna þess að við munum nota tækifærið og fara í frekari lagfæringar í leiðinni, að minnsta kosti í Holtaskóla og Myllubakkaskóla.“ Einnig verði farið í stækkanir á skólum. Reiknar hann með því að framkvæmdirnar taki 3 til 4 ár. „Að komast fyrir mygluna sjálfa á aðeins að taka nokkrar vikur til viðbótar,“ segir hann.
Heimild: Frettabladid.is