Home Fréttir Í fréttum Drög að húsnæðis- og mannvirkjastefnu í samráðsgátt

Drög að húsnæðis- og mannvirkjastefnu í samráðsgátt

114
0
Mynd: RÚV – Kristján Ingvarsson

Drög að stefnumótun innviðaráðuneytisins til næstu ára í húsnæðis- og mannvirkjamálum eru opin til umsagnar í samráðsgátt stjórnvalda. Almenningur er hvattur til að kynna sér drögin og leggja sitt til málanna.

<>

Í skýrslunni, svokallaðri grænbók, er greint frá mati Húsnæðis- og mannvirkjastofunar og annarra opinberra aðila, á stöðunni í málaflokknum.

Eins má sjá niðurstöðu af vinnu starfshópa og því samráði sem haft var við almenning auk annarra þeirra sem hagsmuna eru taldir hafa að gæta.

Grænbókin sýnir drög að framtíðarsýn stjórnvalda í húsnæðis- og mannvirkjamálum auk helstu áherslna við gerð stefnunnar. Skila má umsögn eða ábendingum til og með 19. febrúar.

Á vef stjórnarráðsins segir að aldrei áður hafi verið mótuð formleg stefna af þessu tagi á landsvísu en gerðar voru rafrænar spurningakannanir um viðhorf sveitarfélaga og ungs fólks.

Innviðaráðuneytið efndi auk þess síðasta haust til fundaraðarinnar „Vörðum leiðina saman“, í samvinnu við landshlutasamtök sveitarfélaga, þar sem almenningi var boðið til umræðna um framtíðarstefnumótun varðandi samgöngur, sveitarstjórnarmál og húsnæðis- og skipulagsmál.

Stjórnvöld segja aldrei áður hafi verið mótuð formleg húsnæðis- og mannvirkjastefna á landsvísu
Mynd: Birgir Þór Harðarson

Endanleg útgáfa grænbókarinnar verður birt eftir að unnið hefur verið úr umsögnum og í kjölfarið gerð hvítbók með stefnu og aðgerðaáætlun í málaflokknum. Stefnt er að í mars verði þingsályktunartillaga innviðaráðherra um húsnæðisstefnu lögð fram fyrir Alþingi.

Heimild: Ruv.is