Home Fréttir Í fréttum Telur eiturefni í fyrirhugaðri verksmiðju Íslandsþara geta valdið stórslysi

Telur eiturefni í fyrirhugaðri verksmiðju Íslandsþara geta valdið stórslysi

80
0
Í verksmiðju Íslandsþara er áætlað að verka 40 þúsund tonn af stórþara á ári. Íslandsþari

Um 40 einstaklingar og fyrirtæki á Húsavík gera athugasemdir við deiliskipulag þar sem Íslandsþara yrði úthlutað lóð við höfnina. Slökkviliðsstjórinn bendir á mikla notkun á hættulegum eiturefnum í fyrirhugaðri verksmiðju sem gætu valdið stórslysi.

<>

Breyta þarf deiliskipulagi og sameina tvær lóðir við Húsavíkurhöfn til að koma þar fyrir 5000 fermetra verksmiðju Íslandsþara. Þar á að vinna afurðir úr stórþara sem vex á hafsbotni undan Norðurlandi.

Afar neikvæðar umsagnir
41 umsögn barst Norðurþingi um þessa deiliskipulagsbreytingu. Jákvæðar umsagnir er teljandi á fingrum annarrar handar, í flestum tilfellum er breytingunum mótmælt og margar eru afar neikvæðar.

„Ég held að það sé nú þannig að það birtast neikvæðar athugasemdir um þetta mál, en ég held að það séu mjög margar aðrar athugasemdir, vangaveltur og spurningar sem eru jákvæðar, sem menn höfðu ekki ástæðu til að senda inn í þetta ferli,“ segir Hjálmar Bogi Hafliðason, forseti bæjarstjórnar Norðurþings.

„Þú efast ekkert um verkefni sem íbúarnir eru svo mikið á móti?“

„Það er bara mitt hlutverk sem kjörinn fulltrúi að taka tillit til allra athugasemda, hvort sem þær eru neikvæðar eða jákvæðar.“

Mikil notkun eiturefna gæti valdið stórslysi
Auk einstaklinga sem mótmæla verksmiðjunni á þessum stað bárust neikvæðar umsagnir frá ýmsum fyrirtækjum sem starfa í eða við höfnina.

Mesta athygli vekur þó athugasemd slökkviliðs Norðurþings sem er á næstu lóð. Slökkviliðsstjórinn telur mikla áhættu fólgna í gríðarlegri efnanotkun við framleiðsluna, en svo mikið af hættulegum eiturefnum hafi aldrei verið flutt um eða notað í sveitarfélaginu.

Þarna gæti orðið stórslys sem gerði slökkvistöðina, þessa stjórnstöð almannavarna, óvirka og setti íbúðabyggð í næsta nágrenni í stórhættu.

Hjálmar Bogi segir að þetta þurfi að skoða sérstaklega. „Þess vegna var gert áhættumat sem við vorum að fá í hendurnar. Við erum að fara að vinna með þetta áhættumat, að skoða einmitt hvað þetta felur í sér.“

Heimild: Ruv.is