Niðurrif Árbæjarstíflu er meðal valkosta sem Orkuveita Reykjavíkur hefur lagt fyrir borgaryfirvöld með ósk um samstarf um það sem kallað er „niðurlagningaráætlun Elliðaárvirkjunar“. Umhverfis- og skipulagsráð borgarinnar hefur fallist á að málið verði unnið áfram.
Fjallað var um málið í fréttum Stöðvar 2 en umdeild tæming Árbæjarlóns fyrir tveimur árum eru sýnilegustu merki þess að Orkuveita Reykjavíkur hafi hætt rekstri Elliðaárstöðvar.

EGILL AÐALSTEINSSON
Eftir kærumál íbúa í grennd komst Úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála að þeirri niðurstöðu í október að tæming lónsins hefði skort framkvæmdaleyfi og því verið ólögmæt.
Í úrskurðinum í haust fengu bæði skipulagsfulltrúi Reykjavíkurborgar og forstjóri Orkuveitunnar á baukinn. Engin viðbrögð hafa síðan komið um hvernig eigi að vinda ofan af lögbrotinu, fyrr en kannski núna.

GRAFÍK/KRISTJÁN JÓNSSON
Í bókun umhverfis- og skipulagsráðs borgarinnar, um erindi sem Orkuveitan lagði fyrir borgaryfirvöld í síðustu viku, segir að ekki sé gerð athugasemd við að undirbúningur hefjist á endurskoðun deiliskipulags Elliðaárdals samhliða gerð áætlunar um niðurlagningu virkjunarinnar.
Kynnt er skipan stýrihóps um málið og þar eru efst á blaði þau Bjarni Bjarnason, forstjóri Orkuveitunnar, og Ólöf Örvarsdóttir, sviðsstjóri umhverfis- og skipulagssviðsins.

GRAFÍK/KRISTJÁN JÓNSSON
Erindi Orkuveitunnar fylgir samantekt með yfirskriftinni: „Endurheimt náttúrugæða í Elliðaárdal.“
Megininntakið eru valkostir um hvað gera eigi við Árbæjarstíflu og eru þrír möguleikar reifaðir: Að viðhalda henni í núverandi mynd til framtíðar, í öðru lagi vistrennslisaðgerðir, það er sjálfbært rennsli án lokubúnaðar, og loks að fjarlægja stífluna.

ARNAR HALLDÓRSSON
Sá möguleiki að halda áfram raforkuframleiðslu í Elliðaárstöð er hins vegar ekki nefndur í erindi Orkuveitunnar.
Athygli vekur að í fylgigögnum er fyrst og fremst rætt um framtíð Árbæjarstíflu, sem er inntaksmannvirki. Stíflurnar eru hins vegar tvær. Hin er Elliðavatnsstíflan, sem er miðlunarstífla.

EGILL AÐALSTEINSSON
Því vaknar sú spurning. Ef menn ætla sér að færa náttúruna í sitt upprunalega horf, þarf þá ekki jafnframt að fjarlægja Elliðavatnsstíflu? Það myndi þýða mun minna Elliðavatn.
Heimild: Visir.is