Home Fréttir Í fréttum Orkuveitan nefnir niðurrif Árbæjarstíflu sem valkost

Orkuveitan nefnir niðurrif Árbæjarstíflu sem valkost

92
0
Árbæjarstífla. Orkuveitan kynnir þrjá valkosti um framtíð hennar. EGILL AÐALSTEINSSON

Niðurrif Árbæjarstíflu er meðal valkosta sem Orkuveita Reykjavíkur hefur lagt fyrir borgaryfirvöld með ósk um samstarf um það sem kallað er „niðurlagningaráætlun Elliðaárvirkjunar“. Umhverfis- og skipulagsráð borgarinnar hefur fallist á að málið verði unnið áfram.

<>

Fjallað var um málið í fréttum Stöðvar 2 en umdeild tæming Árbæjarlóns fyrir tveimur árum eru sýnilegustu merki þess að Orkuveita Reykjavíkur hafi hætt rekstri Elliðaárstöðvar.

Séð yfir lónsstæði Árbæjarlóns. Fimm mánuðir eru frá því tæming þess var úrskurðuð ólögmæt.
EGILL AÐALSTEINSSON

Eftir kærumál íbúa í grennd komst Úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála að þeirri niðurstöðu í október að tæming lónsins hefði skort framkvæmdaleyfi og því verið ólögmæt.

Í úrskurðinum í haust fengu bæði skipulagsfulltrúi Reykjavíkurborgar og forstjóri Orkuveitunnar á baukinn. Engin viðbrögð hafa síðan komið um hvernig eigi að vinda ofan af lögbrotinu, fyrr en kannski núna.

Erindi Orkuveitu Reykjavíkur var sent umhverfis-og skipulagssviði borgarinnar þann 31. janúar. Efni þess er lýst svo: Samstarf um endurheimt náttúrugæða í Elliðaárdal vegna niðurlagningaráætlunar Elliðaárvirkjunar og endurskoðunar á gildandi deiliskipulagi svæðisins.
GRAFÍK/KRISTJÁN JÓNSSON

Í bókun umhverfis- og skipulagsráðs borgarinnar, um erindi sem Orkuveitan lagði fyrir borgaryfirvöld í síðustu viku, segir að ekki sé gerð athugasemd við að undirbúningur hefjist á endurskoðun deiliskipulags Elliðaárdals samhliða gerð áætlunar um niðurlagningu virkjunarinnar.

Kynnt er skipan stýrihóps um málið og þar eru efst á blaði þau Bjarni Bjarnason, forstjóri Orkuveitunnar, og Ólöf Örvarsdóttir, sviðsstjóri umhverfis- og skipulagssviðsins.

Fylgigögn Orkuveitunnar hafa yfirskriftina: Endurheimt náttúrugæða í Elliðaárdal.
GRAFÍK/KRISTJÁN JÓNSSON

Erindi Orkuveitunnar fylgir samantekt með yfirskriftinni: „Endurheimt náttúrugæða í Elliðaárdal.“

Megininntakið eru valkostir um hvað gera eigi við Árbæjarstíflu og eru þrír möguleikar reifaðir: Að viðhalda henni í núverandi mynd til framtíðar, í öðru lagi vistrennslisaðgerðir, það er sjálfbært rennsli án lokubúnaðar, og loks að fjarlægja stífluna.

Elliðaárstöð. Fyrir fjórum árum sagði talsmaður Orkuveitunnar að stöðin væri í raun enn virk. Það eina sem þyrfti að gera væri að leggja nýja aðfallspípu frá Árbæjarstíflu.
ARNAR HALLDÓRSSON

Sá möguleiki að halda áfram raforkuframleiðslu í Elliðaárstöð er hins vegar ekki nefndur í erindi Orkuveitunnar.

Athygli vekur að í fylgigögnum er fyrst og fremst rætt um framtíð Árbæjarstíflu, sem er inntaksmannvirki. Stíflurnar eru hins vegar tvær. Hin er Elliðavatnsstíflan, sem er miðlunarstífla.

Elliðavatnsstífla er miðlunarstífla virkjunarinnar. Ef hún yrði fjarlægð myndi uppistöðulónið Elliðavatn minnka verulega.
EGILL AÐALSTEINSSON

Því vaknar sú spurning. Ef menn ætla sér að færa náttúruna í sitt upprunalega horf, þarf þá ekki jafnframt að fjarlægja Elliðavatnsstíflu? Það myndi þýða mun minna Elliðavatn.

Heimild: Visir.is