Home Fréttir Í fréttum Ísafjörður: Útboð á gervigrasi á Torfnesi í undirbúningi

Ísafjörður: Útboð á gervigrasi á Torfnesi í undirbúningi

184
0
Mynd: BB.is

Fyrir bæjarráð Ísafjarðarbæjar hefur verið lögð frumathugun á útboði á gervigrasi á Torfnesi í Skutulsfirði.

<>

Á fjárfestingaráætlun sveitarfélagsins eru áætlaðar 100 m.kr. í ár til þess að setja gervigras á knattspyrnuvöllinn á Torfnesi og einnig 100 m.kr. á næsta ári.

Framkvæmdastjóri HSV mætti á síðasta fund bæjarráðs til þess að gera grein fyrir áherslun Vestra.

Stjórn Vestra hefur sett fram óskir um vökvunarkerfi, hitakerfi , drenlagnir og endurnýjun lýsingar og að gervigras á æfingavelli verði einnig endurnýjað þar sem nauðsynlegt er að hafa báða vellina nothæfa vegna fjölda iðkenda.

Reiknað er með gervigrasvelli í fullri stærð og í samræmi við kröfur KSÍ.
Merktur völlur yrði 68x105m., með fjögurra metra öryggissvæði í kringum völlinn = 76x113m., svæði lagt gervigrasi 76x113m = 8.588 fermetrar.

Um hitakerfi segir að reikna þurfi með hámarksafköstum upphitunar þannig að undirliggjandi fylling og gras haldist frostfrítt.

Gert er ráð fyrir að undir gervigrasið verði lagðar um 34 km., af 25 mm. plastpípum sem síðan eru tengdar við tengigrindur sem liggja við enda vallar eða samsíða velli i steyptum stokkum.

Að stokkum koma síðan stofnlagnir sem tengjast við varmadælur. Samhliða lögnum þarf að útbúa tæknirými undir búnaðinn, s.s. tengigrind loka- og stjórnbúnaður, varmadælur o.þ.h.

Vegna vélbúnaðar s.s. varmadælur tengigrindur raflagna og stjórnkerfis þarf að áætla 10-15 fm. tæknirými. Rýmið getur verið staðsett hvar sem er við völlinn.

Núverandi girðing er orðin mjög léleg og það er komin tími á endurnýjun á henni umhverfis völlinn og það vantar alfarið girðingu á þeirri hlið sem snýr að íþróttahúsi.

Vegna endurnýjunar Torfnesvallar, þarf að gera ráð fyrir a.m.k. fjórum háum ljósmöstrum með ljósum sem lýsa 500 til 800 LUX, í útboðsgögnum þarf að gera ráð fyrir hönnun undirstaðna, lýsingu og lagnaleiðum, sem uppfylla kröfur KSÍ og FIFA.

Málið verður áfram til umræðu innan bæjarráðs og aflað verður frekari upplýsinga.

Heimild: BB.is