Isavia skoðar nú leiðir til að bæta vetraraðstöðuna fyrir farþegaþotur við flugstöðina á Keflavíkurflugvelli.
Þetta kemur fram í svari við fyrirspurn sem Fréttablaðið sendi fyrirtækinu vegna hrakninga fleiri hundruð farþega í óveðri á dögunum. Hluti af vandanum þá var gríðarmikil hálka á stæðum eftir að þotunum hafði verið ekið út af flugbrautinni.
„Það er ekki virkur búnaður með hita undir stæðum á vellinum,“ er svar Isavia við þeirri spurningu hvort rétt sé að á flughlöðunum við flugstöðina sé upphitunarbúnaður til að verjast hálku en að hann virki ekki sem skyldi.
„Verkfræðideild flugvallarins er hins vegar að skoða möguleika í þeim efnum og hefur til þess meðal annars leitað upplýsinga af alþjóðaflugvöllum erlendis,“ segir Isavia.
Þá spurði Fréttablaðið hvort verið gætu ranar – eða landgangar – við flugstöðina sem hægt væri að nota í meiri vindi en núverandi rana þannig að koma mætti farþegum frá borði við erfiðari skilyrði en nú sé hægt.
„Miðað við flugvélaflotann sem flýgur til Keflavíkurflugvallar í heild sinni þá eru þeir landgangar sem við notum nú, og aðrir með samskonar öryggisviðmið og þeir, landgangarnir sem við getum notað,“ segir í svari Isavia við þessari síðari spurningu.
Heimild: Frettabladid.is