Home Fréttir Í fréttum Þorlákshöfn: Heidelberg skoðar að flytja verkefnið út fyrir þéttbýlið

Þorlákshöfn: Heidelberg skoðar að flytja verkefnið út fyrir þéttbýlið

226
0

Heidelberg skoðar að flytja verkefnið út fyrir þéttbýlið og byggja nýtt hafnarlægi.

<>

Fyrirtækið Heidelberg hefur nú til skoðunar að byggja nýtt hafnarlægi í um 5 km. fjarlægð frá núverandi höfn í Þorlákshöfn og þar með utan þéttbýlisins. Þetta kom fram á fundi bæjarstjórnar Ölfuss sem fram fór nú síðdegis.

Á fundinum ræddi bæjarstjórn um stöðu mála hvað varðar ætlun Heidelberg um að koma upp framleiðslu á umhverfisvænum íblöndunarefnum til steypuframleiðslu sem draga mun úr útblæstri gróðurhúsalofttegunda um allt að 1,3 milljónum tonna ári.

Á fundinum lagði bæjarstjóri fram minnisblað um stöðu verkefnisins þar sem ma. kom fram að Heidelberg hefði til skoðunar að flytja áætlaða verksmiðju út fyrir þéttbýlið og jafnvel að byggja þar sérstakt hafnarlægi fyri starfsemina.

Yrðu slíkar hugmyndir að veruleika er ljóst að um mikið nýmæli yrði að ræða enda suðurströndin sögulega ekki þótt heppileg til hafnarframkvæmda.

Til að fylgja þessu eftir skoðar Heidelberg nú hvort verkfræðilega sé mögulegt að byggja nýja höfn, eða skipalægi við svokallaða Keflavík, sem liggur sjávarmegin við það svæði sem sveitarfélagið Ölfus hefur skipulagt undir starfsemi sem ekki þykir heppileg innan þéttbýlisins.

Umrætt hafnarlægi yrði þá í tæplega 5 km. fjarlægð frá núverandi höfn og lóðin vel utan þéttbýlis þannig að áhrifin fyrir íbúa yrðu því minni. Þá er svæðið einnig innan þess ramma sem áætlaður hefur verið undir græna iðngarða sem fyrirhugað er að reka á forsendum hringrásarhagkerfis.

Þannig hefði verkefnið burði til að verða eitt af bakbeinum slíkra iðngarða með möguleika á að endurnýta varma og aðra auðlindarstrauma.

Þessu til viðbótar skoðar Heidelberg núna hvort að mögulegt sé að nýta sjávarsand til framleiðslunnar og draga þannig verulega úr þörfinni fyrir flutning á móbergi frá námum.

Í máli bæjarstjóra kom fram að margt væri enn óljóst um verkefnið í heild enda það á frumstigum undirbúnings. Það ætti ekki hvað síst við um hugmyndir tengdar mögulegu hafnarlægi utan þéttbýlis.

Slík úttekt og rannsóknir þar að lútandi væru á frumstigi, eins og verkefnið allt. Áherslan nú er að skoða hvort verkfræðilega mögulegt sé að byggja hafnarlægi við Keflavíkina og þá hvort kostnaður við slíka mannvirkjagerð rúmist innan þeirra marka sem verkefninu eru sett.

Gera má ráð fyrir að framkvæmdin verði að miklu eða einhverju leyti háð umhverfismati og skipulagsvinna er takmörkunum háð.

Heimild: Hafnarfrettir.is