Home Fréttir Í fréttum Fimmtungur kaupenda falli á greiðslumati

Fimmtungur kaupenda falli á greiðslumati

178
0
Hægst hefur á íbúðamarkaði undanfarna mánuði. Hannes hefur þó trú á að markaðurinn fari aftur á flug eftir 12-18 mánuði. Ljósmynd: Haraldur Guðjónsson

Formaður Félags fasteignasala segir talsverðar líkur á að fækka muni í stétt fasteignasala á höfuðborgarsvæðinu, meðan útgefnir kaupsamningar séu mun færri en heildarfjöldi fasteignasala.

<>

Eins og farið er ítarlega yfir í sérblaði um fasteignamarkaðinn sem fylgir Viðskiptablaðinu í fyrramálið hefur hægst allnokkuð á íbúðamarkaði á undanförnum mánuðum.

Eftir miklar verðhækkanir, í kjölfar vaxtalækkanna sem ráðist var í vegna Covid-19 faraldursins, hefur vísitala íbúðaverðs á höfuðborgarsvæðinu nánast staðið í stað frá síðasta sumri. Þá minnkaði velta á markaðnum verulega milli áranna 2021 og 2022.

Hannes Steindórsson, fasteignasali og formaður Félags fasteignasala, segir líklegt að hægagangur íbúðamarkaðarins leiði til þess að fasteignasölum fækki á næstu mánuðum.

„Í október voru útgefnir 382 kaupsamningar á höfuðborgarsvæðinu miðað við árstíðarleiðréttar tölur og hafa ekki verið færri síðan 2013.

Á höfuðborgarsvæðinu eru um 600 starfandi fasteignasalar og því gefur það augaleið að það muni fækka eitthvað í stéttinni ef ástandið verður eins og það er í dag um nokkurra mánaðar skeið.

Í gegnum tíðina hefur fasteignasölum fækkað í niðursveiflum en svo þegar markaðurinn nær sér aftur á strik fjölgar þeim á ný. Það er ekki ólíklegt að sagan endurtaki sig núna. Auðvitað vona ég að ástandið lagist fljótt svo einhverjir fasteignasalar neyðist ekki til að skipta um starfsvettvang.“

Hannes Steindórsson, fasteignasali og formaður Félags fasteignasala.
© Aðsend mynd

Bitnar verst á ungu fólki
Hannes segir stýrivaxtahækkanir peningastefnunefndar Seðlabankans, sem m.a. var ætlað að hægja á fasteignamarkaðinn, hafa haft hægt lítið á markaðnum til að byrja með. Síðustu þrjár til fjórar hækkanir hafi aftur á móti bitið verulega.

„Vaxtahækkanir á síðari hluta síðasta árs hægðu verulega á markaðnum, enda var þeim einmitt ætlað að gera það. Breytingar á hámarki veðsetningarhlutfalls og greiðslubyrðarhlutfalls fasteignalána til neytenda höfðu einnig veruleg áhrif.

Fyrir ári síðan var það í undantekningartilfellum sem fólk féll á greiðslumati en í dag er um fimmtungur umsækjenda sem stenst ekki greiðslumat. Það er samt að mörgu leyti jákvætt að markaðurinn hafi hægt á sér, því ástandið á markaðnum var komið út í algjöra vitleysu.

Það sem mér þykir þó sorglegast við þetta allt saman er að það er orðið nær ómögulegt fyrir ungt fólk að kaupa sína fyrstu íbúð eins og staðan er í dag.“

Heimild: Vb.is