Home Fréttir Í fréttum Telja fjár­festa halda aftur af fram­kvæmdum í borginni

Telja fjár­festa halda aftur af fram­kvæmdum í borginni

100
0
Mesti slagkrafturinn í uppbyggingu íbúðarhúsnæðis um þessar mundir er á svæðum utan höfuðborgarinnar. Mynd/GVA

Verktakar eru uggandi yfir hve hægt gengur að ýta stórum framkvæmdum á höfuðborgarsvæðinu úr vör. Flest stærri verkefni á þéttingarreitum séu í höndum fjárfestingafélaga sem haldi að sér höndum vegna óvissu og efnahagsþrenginga.

<>

Skjálfti er farinn að gera vart við sig á verktakamarkaði vegna þess hve treglega gengur að hefja framkvæmdir á stórum byggingarreitum á höfuðborgarsvæðinu.

Helsta ástæðan er talin sú að umsvifamikil fjárfestingafélög, sem hafa heilu hverfin til umráða, haldi nú að sér höndum vegna verðhækkana og ólgu í efnahagslífinu.

Sigurður Hannesson, framkvæmdastjóri Samtaka iðnaðarins, segist kannast við þessar áhyggjur úr röðum sinna félagsmanna.

„Þetta dregur í raun fram ákveðna stöðu sem við höfum haft áhyggjur af um nokkurt skeið, hvað varðar framboð á húsnæði og slagkraft í framkvæmdum á höfuðborgarsvæðinu.“

Sigurður Hannesson, framkvæmdastjóri Samtaka iðnaðarins.

Sigurður segir algengt að fulltrúar sveitarfélaga furði sig á hve hægt gangi að byggja nýjar íbúðir en gleymi gjarnan að taka með í reikninginn að það sé ekki endilega við verktakana sjálfa að sakast í þeim efnum.

„Það eru aðrir aðilar sem hafa þetta í hendi sér að mestu leyti. Oftast einhvers konar fjárfestinga- eða þróunarfélög, með heilu hverfin til umráða á höfuðborgarsvæðinu,“ segir Sigurður.

Samkvæmt verktökum, sem Fréttablaðið hefur rætt við undanfarna daga, er verkefnastaða flestra fyrirtækja í byggingageiranum enn nokkuð góð þótt hægt hafi á fasteignamarkaði.

Mesti slagkrafturinn um þessar mundir sé hins vegar á svæðum utan þéttbýlasta hluta landsins. Þá helst í sveitarfélögum á Suðurlandi og Reykjanesi.

Þetta segir Sigurður að renni frekari stoðum undir að ákveðinn flöskuháls sé að myndast í uppbyggingu húsnæðis á höfuðborgarsvæðinu. Þrátt fyrir gríðarlega eftirspurn og vilja stjórnvalda til að hraða framkvæmdum.

„Ég er ekkert endilega að segja að þetta sé slæm þróun. Allt hefur sína kosti og galla, en þetta er mikil breyting frá því sem áður var. Hvatinn til að hefja framkvæmdir getur verið allt annar eftir því hvort um er að ræða byggingarverktaka eða fjárfestingafélag.

Verktakinn þarf alltaf að halda uppi sterkri verkefnastöðu. Hvað sem á dynur. Hann getur ekki leyft sér að bíða af sér storminn þegar illa árar eða óvissa skapast. Það er í raun breytingin sem við höfum séð undanfarin misseri og hún hefur þessi áhrif.“

Á móti komi, segir Sigurður, að stærri fjárfestar eða þróunarfélög horfi frekar á heildarmyndina. Sem komi heim og saman við breyttar áherslur sveitarfélaga í skipulagsmálum. Hér áður fyrr hafi úthlutun lóða gerst með öðrum hætti. Oft án tillits til samsetningar heilu borgarhlutanna.

„En það er auðvitað ekki gott ef þessi staða hægir á uppbyggingu mikilvægra svæða.

Náttúruleg fjölgun íbúa og uppsöfnuð húsnæðisþörf kalla á hraðari uppbyggingu en við höfum séð fram til þessa.

Það þurfa því allir að leggjast á árarnar og tryggja stóraukið framboð á húsnæði. Fyrirtæki jafnt sem sveitarfélög,“ segir Sigurður.

Heimild: Frettabladid.is

 

Loading..