Home Fréttir Í fréttum Þjóðvegurinn færist úr Borgarnesi og fari framhjá bænum

Þjóðvegurinn færist úr Borgarnesi og fari framhjá bænum

161
0
Nýi vegurinn færi hægra megin við bæinn, eftir að komið er yfir brúna. RÚV – Kristinn Þeyr Magnússon

Ásýnd Borgarness gæti breyst töluvert á næstunni því til skoðunar er að færa þjóðveginn sem liggur í gegnum bæinn þannig að hann liggi utan við hann.

<>

Á leiðinni norður í land eða vestur á firði er vinsælt að stoppa í Borgarnesi, fylla á tankinn eða fá sér eins og eina pulsu í kroppinn. Enda er ekki hjá því komist að fara í gegnum bæinn. Með vaxandi fjölda ferðamanna hefur umferð gegnum bæinn stóraukist undanfarin ár, með tilheyrandi slysahættu.

„Það eru vaxandi þungaflutningar í gegnum byggðina. Svo er auðvitað vaxandi ferðaþjónusta og líka bara meira um að fólk búi hér og vinni fyrir sunnan og öfugt. Þannig að það er bara einfaldlega miklu meiri umferð í gegnum sveitarfélagið heldur en var,“ segir Stefán Broddi Guðjónsson, sveitarstjóri Borgarbyggðar.

Umferðarþunginn færður úr bænum
Þar sem komið er yfir brúna við Borgarnes yrði þá beygt strax til hægri, og þjóðvegurinn lægi meðfram strandlengjunni. Þar með væri mesti umferðarþunginn færður úr bænum og nyrsta bæjarstæðið myndi færast enn norðar.

„Ég geri ráð fyrir að nú sé í gangi kostnaðarmat og umhverfismat og fleira, sem er forsenda þess að niðurstaða fáist, um það hvar vegurinn mun liggja að lokum,“ segir Stefán.

Samhliða þessu er ný íbúabyggð fyrirhuguð nyrst í bænum. „Við erum með á teikniborðinu nýja íbúabyggð, lóðir sem munu liggja svona við sjávarsíðuna.“

Nýi vegurinn færi hér neðan við bensínstöðina.
RÚV – Kristinn Þeyr Magnússon

Óttast ekki að missa viðskipti við ferðalanga úr bænum
Stefán óttast ekki að missa viðskipti úr bænum og segir að þessu fylgi mikil tækifæri fyrir Borgarnes.

„Það mun hafa einhver áhrif á þá þjónustu sem hér er, en í það heila þá tel ég að það muni ekki hafa neikvæð áhrif á atvinnulíf í sveitarfélaginu, ég held að það muni styrkja okkur frekar sem svona krossgötur milli norðurs og vesturs,“ segir Stefán. „Kannski má bæta við að þar sem að þjóðvegurinn mun koma að landi, þar sjáum við fyrir okkur, og erum nú þegar búin að skipuleggja atvinnuhúsnæðislóðir.“

Hann segist sjá í þessu tækifæri til að Borgarnes verði meiri áfangastaður heldur en áningastaður.

Enn nokkur ár til stefnu
Samkvæmt upplýsingum frá Vegagerðinni er vinnuhópur að störfum, með fulltrúum Borgarbyggðar og Vegagerðarinnar. Endanleg ákvörðun verður ekki tekin fyrr en búið er að fara í frekari rannsóknir, meðal annars á umhverfisáhrifum og lífríkinu.

Framkvæmdin er á þriðja tímabili samgönguáætlunar, og því eru enn nokkur ár þar til hún myndi hefjast.

Heimild: Ruv.is