Elsti rúnasteinn sem fundist hefur fannst við vegaframkvæmdir í Noregi. Hann bendir til þess að rúnaletur hafi verið notað lengur en áður var talið.
Tvö þúsund ára gamall rúnasteinn sem fannst í Noregi í fyrra er líklega sá elsti sem fundist hefur. Fornleifafræðingar segja þennan fund einstakan.
Þegar framkvæmdir hófst við þjóðveg í sveitarfélaginu Hole skammt frá Ósló fyrir tveimur árum voru fornleifar kannaðar um leið. Og þar fannst steinn með rúnaristum. Greiningar benda til þess að þetta sé elsti rúnasteininn sem hefur fundist í heiminum, um 2.000 ára gamall. Steininn fannst í gröf þar sem einnig voru mannabein.
Steinar Solheim verkefnisstjóri fornleifauppgröftsins var steinhissa þegar hann fékk fyrst mynd af steininum. „Ég hætti næstum því að anda og varð algjörlega orðlaus þegar ég áttaði mig á því sem ég sá.“
Einstakur fundur
Kristel Zilmer rúnasérfræðingur tekur í sama streng. „Þetta rúnafundur er sá áhugaverðasti sem ég sem rúnasérfræðingur hef fengið í hendurnar á ferlinum.“
Zilmer segir að á steininum séu átta rúnir sem hægt er að lesa greinilega. „Þar stendur I,D,B,Rog. Við teljum mjög líklegt að þetta sé nafn og sá maður hefur verið uppi fyrir um 2.000 árum.“
Ekki hefur hingað til verið talið að byrjað hafi verið að nota rúnir svo snemma og því líklegt að fundurinn veki athygli víða um heim. Steinninn verður áfram til rannsóknar ásamt fleiri minni steinum sem fundust á sama stað.
„Þetta er einstakur fundur, á því er enginn vafi. Við teljum að þetta veki mikla athygli meðal vísindamanna,“ segir Steinar Solheim. Steinninn verður til sýnis á sögusafninu í Ósló frá og með næstkomandi laugardegi.
Heimild: Ruv.is