Framkvæmdastjóri hjá Landsnet segir að rafmagnsleysið sem varð á Reykjanesi í gær sýni alvarleika þess að svæðið sé háð einni raforkulínu. Lagning annarrar línu á svæðið hefur strandað á sveitarfélaginu Vogum.
Rafmagnslaust varð á öllum Suðurnesjum í um þrjár klukkustundir í gær þegar Suðurnesjalínu sló út. Síðar kom á daginn að eldingavari í tengivirki Landsnets í Fitjum í Reykjanesbæ sló út. Talið er að um þrjátíu þúsund manns hafi verið án rafmagns vegna bilunarinnar.
„Öll okkar tæki sem við mennirnir búum til, þau bila alltaf að lokum. Það kemur eitthvað upp á. Það er ekkert óeðlilegt að það gerist,“ sagði Sverrir Jan Norðfjörð, framkvæmdastjóri Þróunar og tæknisviðs Landsnets, í Bítinu á Bylgjunni í morgun þar sem umrædd bilun var til umræðu.
Sagði hann rafmagnsleysið í gær sýna alvarleika þess að Reykjanes sé háð einni raforkulínu. Ef eitthvað bilaði hefði það víðtæk áhrif.
„Það kemur reglulega eitthvað upp. Eitt árið fauk járnplata í línuna, þá varð rafmagnslaust. Eitt árið mokaði verktaki í jarðstreng hjá okkur, þá varð rafmagnslaust. Einhvern tímann var selta, þá varð rafmagnslaust,“ sagði Sverrir.
„Það sem ég kann til þess að laga þetta það er einfaldlega það að hafa tvær línur. Hjáleið, eins og það heitir í vegakerfinu,“ sagði Sverrir enn fremur.
Talið barst þá að Suðurnesjalínu 2 sem verið hefur í bígerð undanfarin ár.
„Það hefur verið ósætti um þá framkvæmd,“ sagði Sverrir og vísaði þar í að sveitarfélagið Vogar hafi ekki afgreitt framkvæmdaleyfi svo hefja megi framkvæmdir við Suðurnesjalínu 2. Vogar vilja jarðstreng en hin sveitarfélögin á Suðurnesjum hafa þegar veitt Landsneti framkvæmdaleyfi fyrir loftlínu. Málið hefur verið nokkuð hitamál og fyrir jól flugu nokkur skot á milli Landsnets og sveitarfélagsins í opinberri umræðu.
„Eins og staðan er í dag þá höfum við leyfi frá okkar eftirlitsaðila sem er Orkustofnun. Línan fer um fjögur sveitarfélög. Við erum með framkvæmdaleyfi þriggja þeirra. Okkur vantar fjórða framkvæmdaleyfið,“ sagði Sverrir.
Bæjarstjóri Voga sagði fyrir áramót að málið væri í eðlilegu ferli hjá sveitarfélaginu, reiknað væri með að ákvörðun myndi liggja fyrir fljótlega eftir áramót.
„Ég hef fulla trú á því að það sé að hreyfast,“ sagði Sverrir um stöðuna á Suðurnesjalínu 2.
Heimild: Visir.is