Home Fréttir Í fréttum Allt þarf að ganga upp til að þjóðarhöll rísi 2025

Allt þarf að ganga upp til að þjóðarhöll rísi 2025

72
0
Forsætisráðherra, ráðherra íþróttamála og borgarstjóri kynntu í dag niðurstöður frumathugunar framkvæmdanefndar um byggingu þjóðarhallar. RÚV – Ragnar Visage

Ráðherra íþróttamála segir enn sem komið er hafi tímaáætlun staðist. Borgarstjóri segir að febrúarmánuð þurfi að nýta til að ákveða kostnaðarskiptingu ríkis og borgar.

<>

Allt þarf að ganga upp svo hægt verði að standa við áætlun um að þjóðarhöll fyrir innahúsíþróttir verði risin eftir tvö ár. Þetta segir ráðherra íþróttamála. Ekki hefur þó verið ákveðið hversu mikið ríkir greiðir og hvað kemur í hlut Reykjavíkurborgar.

Lengi hefur verið kallað eftir því að hér rísi íþróttahöll sem getur hýst landsleiki í innanhúss boltaíþróttum. Laugardalshöllin er of lítil til að uppfylla staðla en alþjóðasambönd hafa veitt undanþágu.

Vegna vatnsleka í Laugardalshöll hafa landslið þurft að leika heimaleiki sína í öðrum og minni íþróttahúsum.

Guðmundur Guðmundsson, landsliðsþjálfari karla í handbolta, gagnrýndi húsnæðisskortinn harðlega í apríl í fyrra: „Mér finnst það þjóðarskömm hvernig þetta er orðið. Við erum eina þjóðin í Evrópu sem á ekki almennilega höll fyrir sína þjóðaríþrótt. Hvað er eiginlega að þessari þjóð?,“ spurði Guðmundur.

Ríki og borg svöruðu þremur vikum síðar með viljayfirlýsingu og stofnun framkvæmdanefndar. Niðurstöður frumathugunar voru kynntar í dag.

Nokkur aðalatriði úr skýrslu framkvæmdanefndar.
RÚV – Kristrún Eyjólfsdóttir

Í aðalrými hallarinnar verða sæti fyrir 8.600 manns og allt að tólf þúsund manns á tónleikum. Hún verður 19 þúsund fermetrar og á að vera risin 2025. Kostnaður við byggingu þjóðarhallar er um fimmtán milljarðar króna.

Hvað ætlar ríkið að borga mikið?

„Ja, nú erum við komin með heildartölu og það á eftir að ræða við borgina. Það liggja fyrir ágætisgreiningar á því hversu mikið borgin mun nýta þetta húsnæði og hversu mikið sérsamböndin munu nýta það,“ segir Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra.

„Meginlínurnar sem við lögðum strax í upphafi var að sá kostnaður sem leiddi af þjóðarleikvangshlutverkinu, þ.e.a.s. áhorfendaaðstaðan, fjölmiðlaaðstaðan og aðstaðan fyrir landslið, það væri svolítið ríkisins en það sem snýr að börnum og ungmennum í Laugadalnum og skólunum, að það væri borgarinnar,“ segir Dagur B. Eggertsson, borgarstjóri í Reykjavík.

Hvað ætlar ríkið að borga mikið af þessum fimmtán milljörðum?

„Það er það sem við förum inn í núna og spilar talsvert inn í rekstrarformið, hvað við sjáum fyrir okkur að verði þarna meira og samspil við mannvirkin í Laugardalnum,“ segir Ásmundur Einar Daðason, ráðherra íþróttamála.

Ásmundur segir að útboðsgögn séu að verða klár og að útboðstíminn verði notaður til að ræða kostnaðarskiptingu.

„Ríki og borg náðu saman um nánast helmingaskipti þegar Harpa var byggð og ég held að enginn sjái eftir því verkefni núna,“ segir Katrín.

„Og oft er nú helmingsskipti góð þegar fólk ætlar að lifa í sátt og samlyndi inn í framtíðina,“ segir Gunnar Einarsson, formaður framkvæmdanefndar um þjóðarhöll.

Heimild: Ruv.is