Home Fréttir Í fréttum Bílaumferð gegnum Egilsstaði minnkar lítið verði Suðurleið fyrir valinu

Bílaumferð gegnum Egilsstaði minnkar lítið verði Suðurleið fyrir valinu

76
0
Á meðfylgjandi teikningu má sjá þær þrjár útfærslur á veglínum við Egilsstaði sem Vegagerðin kannaði og í kjölfarið mælti sérstaklega með Suðurleiðinni (blá lína.) Miðlína er óbreytt eða líttið breytt veglína frá því sem nú er (rauð lína) og gula línan er Norðurleiðin sem ýmsir telja vænsta kostinn. Kort Vegagerðin

Færa má rök fyrir að svokölluð Suðurleið, sú veglína framhjá þéttbýlinu á Egilsstöðum sem bæði Vegagerðin og meirihluti sveitarstjórnar Múlaþings telja vænsta kostinn í framhaldi af gerð Fjarðarheiðarganga, muni ekki minnka bílaumferð gegnum þéttbýlið mikið frá því sem nú er.

<>

Þau rök koma fram í áliti sérfræðinga Skipulagsstofnunar vegna umhverfismats þess sem Vegagerðin birti síðastliðið vor vegna fyrirhugaðra Fjarðarheiðarganga. Gangi allt að óskum hefjast framkvæmdir við þau göngin á næsta ári.

Stofnunin tiltekur ýmsa vankanta á umhverfismati Vegagerðarinnar í viðamiklu áliti sínu sem Austurfrétt mun fjalla  nánar um næstu dagana.

Eitt af því sem stofnunin finnur að eru þau rök Vegagerðarinnar að Miðleiðin svokallaða, óbreytt eða lítt breytt veglína gegnum Egilsstaði eins og nú er, sé farin að hafa neikvæð samfélagsleg áhrif á byggðina sitt hvorum megin Fagradalsbrautar. Telur Vegagerðin þá leið neikvæða vegna umferðaröryggis, hindrunaráhrifa innan bæjarmarkanna og almennt á samskipti fólks í bæjarfélaginu.

Skipulagsstofnun telur vandséð hvernig komast megi að þeirri niðurstöðu eins og segir í álitinu:

„Umferðargreiningar benda hins vegar til að stór hluti umferðar um Fagradalsbraut sé innanbæjarumferð eða eigi erindi á Egilsstaði. Þannig er t.d. gert ráð fyrir að umferð um Fagradalsbraut minnki einungis um 600 bíla með Suðurleið, þ.e. fari úr 4.100 bílum í 3.500 bíla.

Jafnvel þó að Suðurleiðin væri skiltuð þannig að fólk leiðist hana sjálfkrafa þá er styttra að keyra Fagradalsbraut. Staðkunnugir munu væntanlega fljótt átta sig á því og halda áfram að nota gömlu leiðina nema ráðist verði í gagngerar endurbætur á Fagradalsbraut og hún t.d. þrengd og settar hraðahindranir til að gera ökutækjum erfitt um vik að nota hana sem styttri leið gegnum bæinn.

Samkvæmt framlögðum gögnum telur Skipulagsstofnun ljóst að óvissa er um að hvaða marki veglagning samkvæmt Suðurleið komi til með að draga úr umferð þungaflutningabíla um Fagradalsbraut og óraunhæft að gera ráð fyrir því að Suðurleið muni fjarlægja alla þungaflutningabíla af Fagradalsbraut.

Í ljósi ofanritaðs telur Skipulagsstofnun því mikilvægt að ráðist verði í aðgerðir til að bæta umferðaröryggi á Fagradalsbraut, jafnvel þó svo að Hringvegurinn verði fluttur út fyrir þéttbýlið.“

Skipulagsstofnun bætir við að þeir kostir sem flokkast undir Miðleiðina [þ.e. óbreytt eða lítt breytt leið] séu jafnframt hagkvæmustu kostirnir með tilliti til umferðaslysa, þjóðhagslegrar arðsemi og rasks á viðkvæmri náttúru. Sú skoðun Vegagerðarinnar að ekki sé hægt að útfæra Miðleið þannig að hún hafi jákvæð áhrif á samfélagið og markmið framkvæmdarinnar sé vafasöm.

„[…] telur Skipulagsstofnun að Miðleið með Fagradalsbraut í óbreyttri mynd hefði lítil sem engin áhrif á samfélag. Það þýðir að Miðleið gæti hæglega haft jákvæð áhrif á samfélag ef gripið yrði til aðgerða sem bæta sambúð vegar og byggðar. Miðleið hefur m.a. lægstu slysatíðnina og mestu þjóðhagslegu arðsemina.

Sú staðreynd að Miðleiðin hefur fæstu aksturskílómetrana og fæstu akstursklukkustundirnar hlýtur að þýða að ákveðið svigrúm sé til staðar til að ráðast í aðgerðir sem bæta umferðaröryggi við Fagradalsbraut, s.s. lækka hraða eða lagfæra hönnun án þess að hafa neikvæð áhrif á greiðfærni samanborið við Suðurleið.“

Heimild: Austurfrett.is