
Guðmundur Þórðarson og Stefán Sigurðsson ráðnir yfir framkvæmdasvið Landeldis hf. en þeir koma báðir frá fyrirtækinu Leonard Nilsen & Sønner í Noregi þar sem þeir hafa stýrt viðamiklum verkefnum á sviði jarðgangnagerðar síðastliðin ár.
Þetta kemur fram í tilkynningu frá Landeldi hf. en fyrirtækið stefnir að framleiðslu 33.500 tonna af laxi í nýrri landeldisstöð sem er í byggingu vestan Þorlákshöfn.

Í tilkynningunni segir að Guðmundur er húsasmíðameistari og byggingatæknifræðingur frá Horsens Ingeniørhøjskole í Danmörku. Hann hefur stýrt fjölda umfangsmikilla verkefna í gegnum tíðina sem eru mörg hver sérhæfð, þar á meðal stækkun álverksmiðju ÍSAL, byggingu fóðurverksmiðju fyrir lax í Noregi, jarðgangnagerð, virkjanir á Íslandi og Grænlandi ásamt fjölda annara verkefna.
Stefán er Byggingaverkfræðingur frá Danmark Tekniske Universitet ásamt því að vera byggingatæknifræðingur og húsasmiður. Hann hefur einnig stýrt fjölda verkefna m.a. jarðgangagerð í Noregi, fiskvinnsluhús á Dalvík, útlögn á fráveitulögn frá landi og út í sjó við Grindavík og fjöldi annara verkefna.
„Við Stefán Sigurðsson höfum fylgst með utanfrá hvernig Landeldi í Þorlákshöfn hefur þróast. Við höfum heillast af verkefninu, bæði stærð verkefnisins og jákvæðu þýðingu þess. Verkefnið er umfangsmikið og telur uppbyggingarsvæðið um 33 ha í Þorlákshöfn. Við erum fullir tilhlökkunar og framundan eru mjög áhugaverðir og spennandi tímar“ er haft eftir Guðmundi.
Guðmundur og Stefán hófu báðir störf hjá Landeldi 1. janúar.
Heimild: Mbl.is