Home Fréttir Í fréttum Af framkvæmdum RARIK á árinu 2022

Af framkvæmdum RARIK á árinu 2022

181
0
Samsett mynd úr starfsemi RARIK á árinu 2022.

Árið hefur reynst RARIK á margan hátt happadrjúgt til framkvæmda þrátt fyrir ákveðinn efnisskort, þar sem einmunatíð hefur ríkt víðast hvar á landinu langt fram á vetur. Tíminn hefur m.a. verið notaður til jarðstrengjavæðingar RARIK en eins og er hefur um 75% af dreifikerfinu verið sett í jörð.

<>

Á hverju ári er unnið í fjölbreyttum framkvæmdaverkefnum og þau skiptast almennt í verkefni við aðveitustöðvar, jarðstrengjavinnu samkvæmt áætlun RARIK um endurnýjun kerfisins, flýtiverkefni jarðstrengjavæðingar og loks notendadrifna jarðstrengjavæðingu. Á vef RARIK er að finna kortasjá sem sýnir helstu fyrirséðu framkvæmdaverk hvers árs.

Verkefni ársins hafa verið fjölmörg en við verkefnin á ætlun bætast ófyrirséðar framkvæmdir til dæmis vegna heimtaugatenginga að beiðni viðskiptavina.

 

Áskoranir yfir árið

Helga Jóhannsdóttir, framkvæmdastjóri rekstrarsviðs, segir að síðasti vetur hafi verið strembinn m.a vegna tíðra truflana vegna veðurs, sérstaklega á Vesturlandi. „Fyrsta haustlægðin kom svo í lok september og önnur lægð stuttu síðar sem höfðu truflanir í för með sér víða um land. Tíðin hefur verið mild þar fyrir utan og óvenju snjólétt lengi framan af eða þar til jólasnjórinn kom í lok árs með hvelli. Árið skilur svo við okkur á eftirminnilegan hátt með truflun í aflspenni á Stuðlum sem olli rafmagnsleysi á Reyðarfirði og nágrenni í um 6 klst nú á milli jóla og nýárs. Árið hefur verið viðburðarríkt í framkvæmdum og þrátt fyrir að ýmislegt í efnahagslífinu gæti bent til samdráttar með hækkandi verðlagi og verðbólgu þá hefur mikil uppbygging verið í gangi á okkar veitusvæði og mikið að gera í notendadrifnum verkum, sem er mjög ánægjulegt,“ segir Helga.

COVID og Úkraínustríðið hafa þó áhrif, meira að segja á friðsæla Íslandi, með áskorunum á borð við verðhækkanir á efni og aðföngum. Þá eru afgreiðslutímar enn að lengjast og það hefur áhrif á framkvæmdir þannig að allt er erfiðara, dýrara og hægvirkara. „Við höfum notað tíðina í haust til að plægja en getum ekki klárað öll verkefnin þar sem efni vantar til landsins. Þetta hefur verið ein helsta áskorunin í ár, að fá efni, og það er leiðinlegt að geta ekki lokið þessum verkefnum. Við viljum auðvitað losna við loftlínurnar og taka strengina í notkun og vera þannig minna útsett fyrir truflunum í slæmum veðrum. Það hefði verið mjög gott að klára öll þessi verkefni fyrir veturinn,“ segir Helga.

 

Ánægjulegt yfir árið

Framkvæmdatímabilið hjá RARIK er oft ansi stutt vegna vetrartíðar, sem leiðir til þess að RARIK þarf að koma miklu í verk frá apríl/maí og fram í september/október. Það er þó nóg af verkefnum allan ársins hring og þegar ekki er unnið í framkvæmdaverkum þá eru mörg rekstrarverkefni sem þarf að sinna, viðgerðir vegna bilana og slíkt. Eitt af þeim verkefnum sem gott er að vinna að vetri til er línurif. Það skilur eftir sig minni verksummerki þegar farið er yfir landið í frosti og snjó. Línurif er þegar loftlínur eru fjarlægðar þar sem jarðstrengir hafa verið lagðir í stað gömlu línanna. Það er jafnan ánægjulegt að sjá loftlínurnar hverfa og þar með flest ummerki raforkudreifingarinnar.

 

Fjölbreytt notendadrifin verk víða um land

Á kortasjá RARIK, flipanum lengst til hægri sem merktur er framkvæmdir, má sjá ljósbláa punkta en þeir tákna verkefni RARIK sem eru áætluð í hverjum landshluta. Appelsínugulu punktarnir tákna flýtiverkefni en þau eru styrkt af hinu opinbera. Nokkur notendadrifin verkefni eru sýnd með dökkbláum punktum. Notendadrifin verk koma til af frumkvæði viðskiptavina og eru kostuð af þeim að hluta eða öllu leyti og hafa verið mjög fjölbreytt í ár.

 

Helstu framkvæmdaverk ársins:

 

Á Vesturlandi voru sjö jarðstrengsverkefni, þrjú í Dalabyggð, þrjú í Borgarbyggð og eitt á Snæfellsnesi og voru lagðir samtals um 85 km í streng. Þremur verkefnum er lokið en fjögur eru enn í framkvæmd þar sem beðið er eftir búnaði erlendis frá eða verið er að undirbúa spennusetningu. Sem dæmi um áskoranir sem glímt er við nefnir Helga að nú vanti 20 jarðspennistöðvar til að klára verkefnin á Vesturlandi. Búið sé að plægja en efnið vanti vegna afhendingartafa. Vonast er til að verkefnunum ljúki ef veður leyfir snemma á nýju ári. Á árinu var lokið við endurnýjun aðveitustöðvarinnar í Glerárskógum og uppsetningu nýs fjargæslukerfis á Vesturlandi lauk einnig á árinu.

 

Á Norðurlandi var RARIK með átta jarðstrengsverkefni og með samtals 119 km af strengjum. Þar af er sex verkum þegar lokið en verkefnum í Langadal/Svartárdal (24 km) og í Hjaltadal (15 km) er ólokið vegna þess að jarðspennistöðvar vantar. Ekki næst því að ljúka þeim verkefnum fyrir áramótin þrátt fyrir óvenju gott tíðarfar á Norðurlandi.

 

Viðbyggingu við aðveitustöðina á Skagaströnd lauk á árinu auk rofaskipta en spennir verður settur upp á nýju ári. Unnið er að byggingu spennaskýlis í Varmahlíð ásamt endurnýjun á ytra byrði stöðvarinnar. Á Dalvík var einnig skipt um 11 kV rofa á árinu. Bygging hófst á nýrri aðveitustöð á Kópaskeri sem lýkur árið 2023 og á Vopnafirði er verið að byggja yfir spenna. Í desember lauk uppsetningu á 33/11 kV spenni í aðveitustöðinni í Vopnafirði. Hann er vegna tengingar Þverárvirkjunar í Vopnafirði sem tók til starfa í lok ársins en auk þess var lagður 33 kV strengur vegna sama verkefnis. Nýtt fjargæslukerfi RARIK var sett upp á árinu og er þeirri vinnu að mestu lokið.

 

Á síðustu árum hefur mikið áunnist í að bæta afhendingaröryggi á svæðum sem fóru illa í óveðrinu 2019. Langflestar loftlínur sem skemmdust í því veðri eru komnar í jörð, t.d. á þessu ári línur á Vatnsnesi og hluti Glaumbæjarlínu.

 

Á Austurlandi hefur töluvert verið lagt af jarðstrengjum eða um 48 km. Þremur verkefnum er lokið en verkefni í Djúpavogi og Hamarsfirði eru að mestu tilbúin til spennusetningar. Austfirðir hafa lent illa í seltuáhlaupum á árinu og hafa bæði Djúpivogur og Hamarsfjörður orðið fyrir truflunum í þeim veðrum, og því hefur verið mikil eftirvænting að fá jarðstrengi þar. Á Austurlandi hefur RARIK unnið tvö verkefni í samvinnu við Orkufjarskipti. Annars vegar er um að ræða 6 km streng frá Hólum að Almannaskarðsgöngum sem búið er að leggja. Framhald verður á því verki á næsta ári í samstarfi við Vegagerðina þegar strengur verður lagður í gegnum göngin. Hins vegar er um að ræða 32 km strenglögn yfir Skeiðarársand. Til stendur að rafvæða sendi Neyðarlínunnar á Skeiðarársandi. Með tengingunni verða Austurland og Suðurland tengd saman í gegnum dreifikerfi RARIK í fyrsta skipti.

 

Á árinu var 11 kV rofabúnaður í aðveitustöðinni á Stuðlum endurnýjaður og kassaverksmiðja á Djúpavogi var tengd. Vegna tilkomu hennar var fæðingin frá Teigarhorni að Djúpavogi styrkt. Einnig hófst á Austurlandi uppsetning fjargæslukerfis sem líkur á næsta ári.

 

RARIK skiptir dreifikerfi sínu í fjögur svæði, Vesturland, Norðurland, Austurland og Suðurland og eru þau ekki tengd saman nema í gegnum flutningskerfi Landsnets. Samtenging með þeim hætti sem á sér stað fyrir Neyðarlínuna á Skeiðarársandi bætir hins vegar afhendingaröryggi til þeirra, þar sem hægt er að fá fæðingu af rafmagni bæði austan megin frá sem og sunnan megin. Mikilvægt er að tryggja góð fjarskipti á Skeiðarársandi sem er erfitt svæði vegna veðurs, eldgosa, flóða og öskufalls en jafnan er mikil umferð á svæðinu, bæði heimamanna og ferðamanna.

Á Suðurlandi eru verkefnin á kortasjánni sex, samtals um 70 km. Þremur verkefnum er lokið og í þeim öllum er kominn strengur í jörð en þar, eins og annars staðar, vantar enn spenna og annað efni til að klára frágang. Aðveitustöð RARIK í Hveragerði var endurnýjuð, bæði rafbúnaður og klæðning að utan. Til viðbótar við þessi verkefni hefur RARIK verið með mikið af notendadrifnum verkum á Suðurlandi, meðal annars í Hveragerði, Þorlákshöfn og á Selfossi.

Góður gangur hefur verið í verkefnum RARIK víða um land á þessu ári og má vænta þess að með hverju verkefni aukist afhendingaröryggi rafmagns eftir því sem veðurþol kerfisins batnar. Þá er fjöldi verkefna um allt land tengdur uppgangi í atvinnulífinu og orkuskiptum. Byggðin í landinu blómstrar sem aldrei fyrr.

Heimild: RARIK.is