Home Fréttir Í fréttum „Mannvirkin eru okkar megin og á hreinni íslensku þýðir það tekjur“

„Mannvirkin eru okkar megin og á hreinni íslensku þýðir það tekjur“

210
0
Mynd: RÚV – Landsvirkjun

Rangæingar vilja gera samfélagssáttmála við Landsvirkjun varðandi Hvammsvirkjun og frekari nýtingu orku í héraðinu.

<>

Sveitarstjórn Rangárþings ytra tók í morgun fyrir umsókn Landsvirkjunar um framkvæmdaleyfi vegna Hvammsvirkjunar. Í bókun sem samþykkt var á fundinum kemur fram að við útgáfu leyfisins þurfi að huga að fjölmörgum atriðum með hagsmuni sveitarfélagsins og samfélagsins alls í huga.

Gera þurfi samfélagssáttmála varðandi framkvæmdina og frekari nýtingu orku í héraði. „Ljóst er að nú þegar er rúmlega helmingur af orku Landsvirkjunar framleidd á svæðinu en lítill hluti nýttur til atvinnustarfssemi á Suðurlandi.“ Var byggðarráði falið að vinna málið áfram og leggja fyrir sveitarstjórn til endanlegrar afgreiðslu.

Eggert Valur Guðmundsson er oddviti sveitarstjórnar Rangárþings ytra.
Mynd: RÚV – Þór Ægisson

Eggert Valur Guðmundsson, oddviti Rangæinga, segir í samtali við fréttastofu að stefnt sé að vinna umsókn Landsvirkjunar hratt og vel. Hugmyndir sveitarfélagsins um einhvers konar sáttmála séu ekki nýjar undir sólinni þótt þetta yrðu kannski nýmæli hér á landi. Sáttmálar af þessu tagi þekkist víða á nágrannalöndunum þegar ráðast er í framkvæmdir af þessari stærðargráðu.

Hvammsvirkjun er bæði í Rangárþingi ytra og Skeið-og Gnúpverjahreppi. Síðarnefnda sveitarfélagið hefur tekið við umsókn Landsvirkjunar en þar hafa íbúar ákveðnar efasemdir. Eggert kveðst hins vegar skynja jákvæðni og velvilja. „Mannvirkin eru náttúrulega okkar megin og á hreinni íslensku þýðir það auðvitað tekjur.“

Með Hvammsvirkjun hyggst Landsvirkjun nýta 352 rúmmetra rennsli og 32 metra fall Þjórsár á um 9 kílómetra löngum kafla frá Yrjaskeri að Ölmóðsey.

Hagalón, uppistöðulón virkjunarinnar, verður um 4 ferkílómetrar. Það verður myndað með stíflu á mörkum jarða Minni-Núps í Skeiða-og Gnúpverjahreppi og Hvamms 1 í Rangárþingi ytra, stíflugarði í landi Skarðs í Rangárþingi ytra og Þjórsárdalsvegi í Skeiða-og Gnúpverjahreppi.

Vegurinn verður endurbyggður frá Minni-Núpi langleiðina að Gaukshöfða og færður nær núverandi farvegi Þjórsár við Hagabæi. Vegurinn verður færður um allt að 500 metra á 5,3 kílómetra löngum kafla og áætluð efnisþörf í verkið um 300 þúsund rúmmetrar.

Heimild: Ruv.is