Framkvæmdir til að ráða niðurlögum myglusvepps, sem greindist hjá BUGL í fyrra og olli töluverðri röskun, hafa ekki borið árangur. Í bréfi sem stjórnendur deildarinnar sendu starfsfólki í gær kemur fram að starfsemi hennar verði nú takmörkuð enn frekar, eftir að fleiri starfsmenn veiktust.
Bráðateymi deildarinnar verður flutt, og móttaka og símaþjónusta sömuleiðis.
Ekki vandað nógu vel til verka
Samkvæmt aðgerðaráætlun um tilfærslu þjónustunnar, sem nú er í vinnslu, verður nýjum málum frestað, hópar felldir niður og eingöngu bráðatilfellum sinnt, þar til ráðin verður bót á húsnæðisvandanum.
„Við rekjum það til fyrst og fremst að menn hafa ekki vandað sig nógu vel við byggingu hússins. Þannig að það hefur lekið inn með lögnum og ekki gengið nógu vel frá rakasperru þannig að raki kemst inn á milli þilja hjá okkur,“ segir Ingólfur Þórisson, framkvæmdastjóri Rekstrarsviðs Landspítalans.
Aðspurður um hvort verktakinn, sem byggði húsið, sé þá ekki mögulega skaðabótaskyldur vegna byggingagallans, svarar Ingólfur: „Mér skilst að verktakinn sé ekki lengur með starfsemi, hann hafi orðið gjaldþrota, þannig að það er ekkert þangað að leita.“
Starfsmenn Barna og unglingageðdeildarinnar hafa fundið fyrir einkennum, aðallega í öndunarfærum, og þola ekki við í húsinu.
Framkvæmdir við að ráða niðurlögum óværunar, hafa staðið yfir frá því í haust. „Þær aðgerðir sem við höfum gripið til hafa borið heilmikinn árangur og við erum núna í lokastigi framkvæmda og klárum væntanlega næstu daga, fljótlega í næstu viku.,“ segir Ingólfur.
Heimild: Rúv.is
Verktaki á byggingu húsisins var Framkvæmd ehf. Byggingin var vígð og tekin formlega í notkun 9. september 2008.