Home Fréttir Í fréttum Efasemdir um hótel hjá Skógarböðunum

Efasemdir um hótel hjá Skógarböðunum

215
0
Frá Skógarböðunum gegnt Akureyri. RÚV – Óðinn Svan Óðinsson

Skógræktarfélag Eyfirðinga segir hugmyndir um nýtt hótel við Skógarböðin í jaðri Vaðlaskógar ómótaðar og samþykkir þær ekki að öllu óbreyttu.

<>

Skógræktarfélag Eyfirðinga samþykkir ekki áform um nýtt hótel við Skógarböðin gegnt Akureyri miðað við fyrirliggjandi upplýsingar. Þar á félagið Vaðlaskóg og formaðurinn segir þeim stillt upp við vegg. Nýtt hótel sé komið í skipulagsferli að þeim forspurðum.

Eigendur Skógarbaðanna hafa kynnt áform um 120 herbergja hótel við böðin sem yrði opnað 2024. Skógarböðin eru í jaðri Vaðlaskógar sem er í umsjá Skógræktarfélags Eyfirðinga. Sigríður Hrefna Pálsdóttir, formaður félagsins, segir þau ekki samþykkja hugmyndir um nýtt hótel út frá þeim gögnum sem þeim hafi borist.

Geta ekki tekið tillit til lausmótaðra hugmynda

„Í rauninni eru hugmyndirnar ennþá svo laustmótaðar að við getum ekki tekið tillit til þeirra. Er þetta að fara að verða fjögurra hæða hótel, eða eitthvað pínulítið og hvað á þetta eftir að teygja sig langt inn í skóginn?“

Áhrifasvæði hótelbyggingar geti orðið mun stærra en einföld teikning af hugsanlegum byggingarreit.

„Við erum kannski að gefa framkvæmdaraðilanum færi á að bæta það áður en við tökum endanlega ákvörðun.“

Telja sér stillt upp við vegg

Þetta svæði tilheyrir Eyjafjarðarsveit og Sigríður telur að sveitarfélagið hafi byrjað á öfugum enda við afgreiðslu málsins.

„Núna er skipulagsnefnd búin að samþykkja að fara í það ferli að breyta deiliskipulagi og aðalskipulagi, að því gefnu að við samþykkjum þetta.“

Finnst ykkur að það sé verið að stilla ykkur upp við vegg?

„Já, ég ætlaði ekki að segja það, en þannig er það svolítið.“

Skógræktarfélagið hafi í sjálfu sér ekkert á móti hótelbyggingu og eigi í góðum samskiptum við eigendur Skógarbaðanna. En félaginu beri skylda til að fara eftir reglum og skuldbindingum sem það hafi gengist undir.

„Og við þurfum bara svolítið að vanda okkur og þau að skilja þá hlið málsins,“ segir Sigríður Hrefna Pálsdóttir, formaður Skógræktarfélags Eyfirðinga.

Heimild: Ruv.is