Home Fréttir Í fréttum Grunnt á því góða hjá sakborningum í stóru skattsvikamáli

Grunnt á því góða hjá sakborningum í stóru skattsvikamáli

231
0
Mynd: Ruv.is – Anton Brink

Einn af fimm sakborningum í umfangsmiklu skattsvikamáli hefur játað að hafa aðstoðað forsvarsmenn tveggja verktakafyrirtækja við að gefa út ranga og tilhæfulausa reikninga. Þeir telja hann hafa breytt framburði sínum til að bjarga eigin skinni.

<>

Mál verktakafyrirtækjanna Brotafls og Kraftbindinga vakti mikla athygli á sínum tíma. Sakborningarnir fimm voru handteknir fyrir sex árum og úrskurðaðir í vikulangt gæsluvarðhald eftir umfangsmiklar aðgerðir héraðssaksóknara og lögreglunnar. Fram kom í fréttum að rannsóknin sneri að stórfelldum brotum hjá verktakafyrirtækjum.

Fólkið var viku í gæsluvarðhaldi.
Mynd: Birgir Þór Harðarson

Ákæra var gefin út í fyrraþar sem fólkið var ákært fyrir meiriháttar brot gegn skatta-og bókhaldslögum. Þetta voru annnars vegar tveir forsvarsmenn Brotafls og tveir forsvarsmenn Kraftbindinga hins vegar. Og svo fimmti maðurinn. Aðalmeðferð fór fram fyrr í þessum mánuði og fyrir jól fékk fréttastofa afhentar greinargerðir allra sakborninga frá Héraðsdómi Reykjaness

Fimmti maðurinn líkir sér við útfararstjóra

Áðurnefndur fimmti maður er ákærður fyrir að hafa aðstoðað bæði forsvarsmenn Brotafls og Kraftbindinga með útgáfu rangra og tilhæfulausra reikninga í nafni fjögurra félaga sem hann var í forsvari fyrir. Upphæðin var í ákæru sögð hafa verið frá 152 milljónum og allt að 763 milljónir.

Umræddur fimmti maður segir í greinargerð sinni að það sé til vitnis um slæmar aðstæður sínar á þessum tíma að hann hafi látið tilleiðast að aðstoða við skattalagabrot. Hann hafi verið í mikilli óreglu.

Hann líkir hlutverki sínu við svonefnda útfararstjóra þar sem bágstaddir séu fengnir til að taka við sem eigendur og forsvarsmenn að einkahlutafélögum sem séu á leið í gjaldþrot og opinberar rannsóknarkærur. Hann kveðst ekki hafa unnið sem verktaki eða verið með fjölmennan vinnuflokk manna á sínum snærum, líkt og aðrir sakborningar í haldi fram.

Í greinargerðinni játar hann að hafa aðstoðað við að gefa út ranga og tilhæfulausa reikninga en segir ávinning sinn hafa verið lítinn sem engan. Hann hafi allur runnið til félaga í eigu hinna sakborninganna fjögurra.

Segja framburðinn hafa breyst þegar kyrrsetningu var aflétt

Forsvarsmenn Kraftbindinga og Brotafls gefa lítið fyrir breyttan framburð fimmta mannsins.

Stjórnarmaður Kraftbindinga annars vegar og framkvæmdastjóri félagsins hins vegar eru ákærðir fyrir að standa skil á efnislega röngum virðisaukaskattskýrslum og rangfæra bókhald félagsins. Brot þeirra eru í ákæru sögð hafa numið 87 milljónum króna. Þeir neita sök.

Annar þeirra segir í greinargerð sinni að svo hafi virst að ákveðnir sakborningar hafi í rannsókn héraðssaksóknara fengið tækifæri til þess að tala sig inn í friðhelgi frá saksókn eða afléttingu á kyrrsetningu eigna.

Héraðssaksóknari gaf út ákæru í málinu í október á síðasta ári
Mynd: RÚV – Ragnar Visage

Hann segir fimmta manninn hafa breytt framburði sínum í skýrslutöku hjá héraðssaksóknara í nóvember 2017 og þannig vísað ábyrgð yfir á aðra sakborninga.

Sem hann telur merkilegt því fyrir breytingu hafi hann verið mjög afdráttarlaus um að hann hefði sannarlega veitt þá þjónustu sem reikningarnir gengu út. „Með því virðist hann hafa ætlað að bæta stöðu sína í máli þar sem hann sjálfur veldur öllu og er einhvern veginn sá sem heldur um alla þræði.“

Sjálfur segist hann alla tíð hafa verið mjög skýr og afdráttarlaus um sakleysi sitt. Framburður fimmta mannsins hafi hins vegar verið óskýr og óstöðugur.

Hinn forsvarsmaður Kraftbindinga setur spurningarmerki við það hvenær fimmti maðurinn breytti framburði sínum. Hann setur breytinguna í samhengi við þegar héraðssaksóknari aflétti kyrrsetningu á eign hans upp á 3,5 milljónir. Þá segir hann engin vottorð eða staðfestingar liggja fyrir um að fimmti maðurinn hafi verið í mikilli neyslu eða að aðrir sakborningar í málinu hafi nýtt sér það ástand hans.

Segir skýrslutöku yfir fimmta manninum með ólíkindablæ

Tveir framkvæmdastjórar Brotafls eru ákærðir fyrir að standa skil á efnislega röngum virðisaukaskattskýrslum og rangfæra bókhald félagsins. Meint brot eru sögð nema 64 milljónum. Þau neita sök.

Annar forsvarsmaður Brotafls hafnar því reyndar með öllu að hafa verið starfsmaður félagsins eða þegið frá því laun. Hún segir félagið hafa verið í eigu sambýlismanns hennar og hann beðið hana um aðstoða sig við að skrifa út sölureikninga og sjá um tölvuvinnslu.

Hinn forsvarsmaður Brotafls bendir á í greinargerð sinni að fimmti maðurinn hafi verið margsaga í sínum framburði og augljóslega oft og ítrekað farið með rangt mál í skýrslu sem skattrannsóknarstjóri skilaði af sér. Hann segir eina skýrslutöku yfir fimmta manninum vera með ólíkindablæ. Þar hafi rannsakandi aðeins haft áhuga á að fá fram einhverjar haldbærar ástæður eða skýringar frá fimmta manninum til að klekkja á sér.

Telur tjón sitt af kyrrsetningu vera 100 til 200 milljónir

Sakborningarnir fimm eru sammála um að rannsókn yfirvalda hafi verið í skötulíki.

Einn sakborningur bendir á að ákæra hafi ekki verið gefin út fyrr en sex árum eftir fyrstu skýrslutökur. Annar segir að málið sem slíkt og allar tafir á því hafi hvílt mjög þungt á honum. Hann hafi verið rúinn öllu trausti og átt í fá hús að venda. Hann hafi skrifað bréf til skattrannsóknarstjóra í september 2018 þar sem hann hafi beðið „náðarsamlegast“ um að fá að ljúka aðkomu sinni en þeirri beiðni verið hafnað. Hann telur beint tjón sitt af kyrrsetningu héraðssaksóknara í tengslum við rannsóknina nema að minnsta kosti 100 eða jafnvel 200 milljónum.

Embætti héraðssaksóknara er gagnrýnt harðlega fyrir tafir á rannsókn málsins.
Mynd: Kveikur

Þriðji sakborningurinn segir tafirnar hafa verið honum þungbærar og sett honum talsverðar skorður. Hann hafi ekki getað stundað rekstur eða eignast neitt og sú óvissa hafi valdið honum mikilli og andlegri vanlíðan. Annar bendir á að málið hafi rekist milli rannsóknar-og ákæruvalds í á áttunda ár. Ekki hafi fengist viðhlítandi skýringar á þessum óheyrilega drætti.

Dómur í málinu fellur eftir áramót.

Heimild: Ruv.is