Home Fréttir Í fréttum Geðdeild enn í bráðabirgðahúsnæði frá 1986

Geðdeild enn í bráðabirgðahúsnæði frá 1986

82
0
Sjúkrahúsið á Akureyri. Mynd: Ágúst Ólafsson – RÚV

Umboðsmaður Alþingis telur þörf á endurbótum á aðbúnaði sjúklinga sem dvelja á geðdeild Sjúkrahússins á Akureyri. Húsnæðið var tekið í notkun fyrir 37 árum og átti þá að vera til bráðabirgða.

<>

Húsnæði geðdeildar Sjúkrahússins á Akureyri stenst ekki nútímakröfur, segir í skýrslu á vegum umboðsmanns Alþingis. Húsið var tekið í notkun 1986 og átti þá að vera til bráðabirgða.

Eftirlit Umboðsmanns var vegna svokallaðrar OPCAT bókunar við samning Sameinuðu þjóðanna, gegn pyndingum og grimmilegri eða vanvirðandi meðferð eða refsingu. Þetta er gert með reglubundnum heimsóknum á staði þar sem einstaklingar kunna að vera sviptir frelsi sínu. Sjúkrahúsið á Akureyri er eina geðdeildin utan höfuðborgarinnar þar sem hluti sjúklinga kann að dvelja gegn vilja sínum.

Við eftirlitið í ár voru gerðar athugasemdir við húsnæðið, sem fyrir þrjátíu og sjö árum var hugsað til bráðabirgða.

Héðinn Unnsteinsson.
Mynd: RÚV

Héðinn Unnsteinsson, formaður Geðhjálpar, segir þetta eina birtingarmynd þess hve fjársvelt geðheilbrigðismál hafi verið í áraraðir.

5% fjármagns til geðheilbrigðismála, en umfangið yfir 20%

„Við höfum bent á þetta bæði á Landspítalanum og á Akureyri. Í fyrsta lagi höfum við náttúrulega bent á það að það eru að fara 320 milljarðar til heilbrigðismála á ári plús tæpir 90 í málefni fatlaðra og örorku. Þetta eru 400 milljarðar af 1200 milljarða fjárlögum, þetta er einn þriðji. En af þessum 320 sem fara til heilbrigðismála renna beint til geðheilbrigðismála aðeins áætlað um það bil 5% á meðan umfangið er 20-25%.“

Nauðungarvistaðir þurfi betra aðgengi að útivist og virkni

Í skýrslunni eru gerðar athugasemdir við takmarkaða möguleika nauðungavistaðra á útivist, virkni og endurhæfingu. Eins er nefnt að skerpa þurfi á öryggisverkferlum, en þar er til dæmis ekki sérstakt teymi þjálfað í viðbrögðum við ofbeldi, líkt og er á Landspítala.

Samkvæmt formanni Geðhjálpar eru athugasemdirnar sem koma fram í skýrslunni almennt í takt við stefnubreytingu sem sé að eiga sér stað í geðheilbrigðismálum. Þó sé mikilvægt að fá athugasemdir umboðsmanns, til að beita stjórnvöld þrýstingi.

Umboðsmaður óskar viðbragða frá sjúkrahúsinu, Landlækni og Heilbrigðisráðuneyti fyrir júlí á næsta ári.

Heimild: Ruv.is