Home Fréttir Í fréttum Hugað að byggingu nýs brimvarnargarðs í Grindavík

Hugað að byggingu nýs brimvarnargarðs í Grindavík

135
0
Myndir: Audlindin.is

Sérfræðingar frá Vegagerðinni eru að skoða möguleika á nýjum öflugum brimvarnargarði sem við útenda innsiglingarinnar í Grindavík að suðvestanverðu.

<>

Sá garður myndi skýla skipum á leið til Grindavíkur og út frá henni í innsiglingunni sjálfri. Innsiglingin er 70 metra breið og 10 metra djúp.

Við vissar kringumstæður, til að mynda í 5 til 6 metra ölduhæð í suðvestanátt, er innsiglingin varasöm. „Ef þessi garður kæmi þarna, þá væri skipum óhætt, að mínu mati, að sigla að fara um innsiglinguna við 6 til 7 metra ölduhæð.

Með því yrði höfnin nánast fær alla daga ársins meðan ölduhæð fer ekki yfir 7 metra og það eru mjög fáir dagar. Það eykur þá möguleika á meiri umsvifum, til dæmis með komu millilandaskipa.

Við siglingar slíkra skipa er ekki hægt að reiða sig á hafnir sem eru mikið lokaðar. Við erum að sjá þarna ljós í myrkrinu með því að bjóða upp á höfn sem er miklu öruggari með þessum garði en án hans,“ segir Sigurður A. Kristmundsson, hafnarstjóri í Grindavík.

Sigurður A. Kristmundsson, hafnarstjóri, segir að lagning nýs brimvarnargarðs ráðist af umsvifum hafnarinnar nú og í nánustu framtíð.

Gæti virkað sem flóðvörn í höfninni

„Sérfræðingarnir hjá Vegagerðinni hafa sagt það að þetta lofi góðu samkvæmt þeirra útreikningum. Ég er líka að gera mér vonir um það að garðurinn muni líka virka sem flóðvörn inn í höfnina. 6. janúar í vetur kom mikið flóð sem fór yfir allar bryggjur og inn í frystihús Vísi og víðar.

Ég tel að þessi garður verði það öflugur að hann myndi koma í veg fyrir þessar fyllur, sem geta komið inn í höfnina í sama mæli og þær geta gert nú. Svo er sá möguleiki fyrir hendi að taka boðann niður en við það breikkar innsiglingarrennan um nálægt helming.“

 Fiskeldið skapar mikil tækifæri

Nú er í uppbyggingu landeldi á laxi í Þorlákshöfn og á Reykjanesi. Þegar eldið verður komi í full afköst er gert ráð fyrir framleiðslu upp á tugi þúsunda tonn. Sigurður sér möguleika felast í því fyrir Grindavíkurhöfn.

„Okkur dettur í huga að í tengslum við mikla uppbyggingu í fiskeldi á Reykjanesi gætu flutningar á fóðri fyrir fiskeldi farið um Grindavíkurhöfn, því til að ala 50.000 tonn af laxi þarf 60.000 af fóðri.

Við erum að flytja hingað um 20.000 tonn af salti á ári svo þrefalt það magn myndi geta komið í fiskifóðri, svo fremi sem það sé flutt til Grindavíkur með skipum. Það felast miklir möguleikar í öllu þessu lagareldi, hvernig sem því vindur svo fram.

Með brimvarnargarðinum verður höfnin öruggari og opnar því betri leið fyrir öll skip, svo sem fiskiskip til að koma hingað til löndunar.

Við erum að undirbúa okkur undir þetta og líka væntanlega aukin umsvif Síldarvinnslunnar í Grindavík með kaupunum á Vísi hf. Hér gætu orðið auknar landanir ef þeir nýta sér hátæknifrystihúsið á staðnum og nálægðina við Keflavíkurflugvöll til að auka útflutning á ferskum fiski,“ segir Sigurður.

Teikning úr hafnareiknilíkani Vegagerðarinnar af nýjum varnagarði í Grindavík og uppsettri öldu sem kemur úr suðvestri sem ekki er óalgengt að gerist á svæðinu. Hér verður ekki um villst að mikið skjól kemur af garði sem lagður yrði að SV – enda innsiglingarinnar. Skip í innsiglingu hafa þá öruggt skjól í 70 metra breiðri rennunni. Einnig er til skoðunar að fjærlægja Sundboðann alveg og myndi innsiglingin tvöfaldast við þá aðgerð að minnsta kosti.

Þrefalt fleiri fóðurflutningaskip

Nú þegar eru teikn á lofti um aukna umferð um höfnina tengda fiskeldi. Komum skipa með fiskifóður hefur fjölgað mikið nánast þrefaldast frá síðasta ári. Skipin eru 24 á þessu ári meðan þau voru aðeins 9 í fyrra. Það telur líka vel inn í umsvifin við höfnina.

„Ef þetta verður að veruleika, verður framkvæmdin óhemju dýr og því þarf að vanda alla útreikninga á kostnaði annars vegar og ávinningi við framkvæmdina hins vegar. Það þarf að sannreyna að hún skili virkilega þeim hafnarbótum sem til er ætlast. Við förum ekki í þessa framkvæmd nema hún komi að fullum notum. Nú er hægt að keyra líkön í tölvum til að skoða hverju svona brimvarnargarður skilar. Svo þarf að meta ávinninginn fyrir höfnina.

Aukin umsvif þarf til að standa undir framkvæmdinni

Þegar Vegagerðin metur þörfina á þessari framkvæmd, leggur hún til grundvallar núverandi umsvif í höfninni. Ef umsvifin núna í dag eru nægileg, plús þau auknu umsvif sem við gerum ráð fyrir, til að standa undir kostnaði á þessum framkvæmdum, getum við lagt af stað í verkefnið.

En hins vegar  ef umsvifin verða ekki talin nægilegt, fáum við ekki fjármagn í framkvæmdina. Þess vegna er ákaflega mikilvægt að fyrirtækin hér haldi áfram að landa fiski hér eins og til dæmis Þorbjörn gerir með frystitogarana sína.  Þeir landa hér í 95% tilvika. Ísfiskskipin landa ekki eins reglulega hér, enda oft að veiðum langt frá heimahöfn.

Það er hins vegar alltaf sárt að sjá heimaskipin landa í öðrum tiltölulega nálægum höfnum. Ég held að menn átti sig ekki alltaf á því að við fáum ekki, fé til framkvæma nema umsvifin séu stöðug og tekjur hafnarinnar standi undir kostnaði við framkvæmdir.

Þegar skipin landa annarsstaðar stendur höfnin hér tóm og við erum að reyna að sýna fram á umsvif, sem nægja til að fá fjármagn til að fara í framkvæmdir sem öllum koma til góða. Framkvæmdir sem gera innsiglinguna eins góða og við sjáum fyrir okkur. Það er svolítið sárt, því það er hagur allra fyrirtækjanna hér.

Þegar grannt er skoðað fara hagsmunir hafnarinnar og útgerðar- og fiskvinnslufyrirtækjanna saman. Því meira sem höfnin ber úr býtum getur hún gert meira fyrir fyrirtækin á staðnum, sem og aðra sem sjá sér hag í að landa í Grindavík,“ segir Sigurður.

Unnið að lagfæringu kvíabryggju, skipt um dekk og fleira.

Líftími Kvíabryggju lengdur

Nú standa yfir framkvæmdir við Kvíabryggju. Skipt um dekk og bætt við undirstöðustaurum, reknir niður um átta staurar og endurnýjaðir snittteinar í löndunarkrönunum og langbönd á framhliðinni. Það var ýmislegt sem var orðið fúið.

„Við vonum að við fáum 15 til 20 ára lengingu á endingu bryggjunnar með þessum viðgerðum. Við notuðum svo tímann til að að auka öryggi við bryggjuna. Okkur ber skylda til þess samkvæmt reglugerð um öryggi í höfnum að hafa ljós í öllum stigum.

Við lögðum því rafmagn í nýja stiga sem komu í leiðinni. Nú eiga að vera öryggisljós í hverjum stiga. Því verða fáir stigar eftir á bryggjunum hjá okkur sem eru ekki með raftengd ljós.

Það hefur reyndar gengið illa að halda ljósunum í lagi því það flæðir svo mikið hér yfir bryggjuna við tilteknar aðstæður. Við erum að vona að þess nýju ljós muni lifa það af að fara vel á kaf. Við erum að finna út hvaða ljós henta best við þessar aðstæður hjá okkur. Þær geta orðið ansi slæmar í verstu flóðunum.

Fyrir utan þetta er þekjan á Suðurgarði ónýt, en þar landa togararnir okkar. Hún verður brotin upp á næsta ári og endurgerð. Þekjan hefur verið að síga mikið og virðist það víða vera vandamál. Það koma djúpar dældir í hana og fyrir vikið liggur of mikið vatn þar,“ segir Sigurður A. Kristmundsson.

Viðtal þetta birtist áður í blaðinu Sóknarfæri, sem Ritform gefur út. Nálgast má blaðið á heimasíðu útgáfunnar https://ritform.is/

Heimild: Audlindin.is