Home Fréttir Í fréttum Færsla ráðuneyta á Hafnartorg ekki rædd í ríkisstjórn

Færsla ráðuneyta á Hafnartorg ekki rædd í ríkisstjórn

139
0

Mögulegur samningur um flutning ráðuneyta í nýbyggingu á Hafnartorgi, og möguleikinn á því að skipta á lóð ríkisins við Skúlagötu og lóðinni á Hafnartorgi, hafa ekki verið rædd í ríkisstjórn Íslands. „Það er ekki komið neitt mál til þess að samþykkja í ríkisstjórn,“ segir forsætisráðherrann Sigmundur Davíð Gunnlaugsson um málið.

<>

Svandís Svavarsdóttir, þingmaður VG, spurði Sigmund Davíð um málið í óundirbúnum fyrirspurnatíma á Alþingi í dag. Hún minnti á það að samkvæmt forsetaúrskurði fari fjármálaráðherra með ráðstöfun eigna ríkisins. Þá sé engin heimild til að ráðstafa lóð ríkisins á nokkurn hátt í fjárlögum. „Vil ég spyrja hæstvirtan forsætisráðherra, hvaða lagaheimildir styðst hann við þegar hann ráðstafar ríkiseignum á stjórnarráðsreit?“

Sigmundur Davíð sagði að það eina sem gerst hefði væri að forsætisráðuneytið samþykkti að eiga viðræður um aðkomu að málinu, en það væri allt opið. Hins vegar væri ekki óeðlilegt að skoða málið, og það væri ekki í fyrsta skipti sem það væri gert í ljósi húsnæðisþarfa stjórnarráðsins. „Sú þörf er orðin mjög knýjandi núna, vegna þess að að minnsta kosti forsætisráðuneytið er að missa húsnæðið sem megnið af ráðuneytinu hefur haft aðsetur í og þar að leiðandi óhjákvæmilegt að leita leiða til þess að leysa úr því.“

Ef til samninga um makaskipti á lóðum, eða leigusamnings, kæmi myndi það fara eftir þeim reglum „sem almennt gildi um slíkt.“

Svandís sagði þá væntanlega rétt skilið hjá henni að málið hefði ekki verið rætt í ríkisstjórn og ekki hefði verið rætt við ráðuneytið sem á að fara með eignir ríkisins. Auk þess sé ekki heimild í fjárlögum. Sigmundur sagði hins vegar að ályktanir Svandísar væru alrangar, því haft hefði verið samráð við fjármálaráðuneytið um húsnæðismál stjórnarráðsins á undanförnum árum og einnig núna. Hann ítrekaði að ef til samninga kæmi myndi það gerast eftir reglum.

Heimild: Kjarninn.is