Fyrsta skóflustungan að nýrri þjóðarhöll Færeyinga verður tekin í fyrramálið en hún mun rísa í Hoyvík, úthverfi Þórshafnar.
Föroya Arena, eins og höllin á að heita, verður heimavöllur færeyskra landsliða í handbolta, blaki, körfubolta, bardagaíþróttum, borðtennis, tennis, badminton, dansi, bogfimi og snóker.
Í höllinni verða sæti fyrir 3.600 manns og stæði fyrir allt að 4.600 manns. Fyrirhugað er að þar verði einnig haldnir tónleikar, ráðstefnur og aðrir menningarviðburðir.
Áætlaður kostnaður við höllina er 243 milljónir danskra króna, eða tæpir 5 milljarðar íslenskra króna, og hún á að vera tilbúin eftir rúmlega tvö ár, eða í janúar árið 2025.
Höllin á Hálsi er aðalkeppnishús Færeyinga en það er á undanþágu í sumum greinum, eins og t.d. í handboltanum.
Heimild: Mbl.is