Á næstu árum er fyrirhugað að reisa íbúðir og atvinnuhúsnæði á ellefu bensínstöðvalóðum í Reykjavík.
Samkvæmt upplýsingum frá borginni er gert ráð fyrir 700-800 íbúðum á þessum lóðum. Þær eru alls rúmlega 40 þúsund fermetrar og sumar í grónum hverfum. Fjöldi íbúða hefur ekki verið endanlega ákveðinn og gæti þeim fjölgað síðar.
Með þessari uppbyggingu verður veruleg breyting á afgreiðslu olíufélaganna í borginni en ítarlega er fjallað um þessi áform í ViðskiptaMogganum í dag.
Atvinnuhúsnæði á jarðhæð
Miðað við að lóðarverð á íbúð verði um 10 milljónir, sem telst raunhæft í ljósi verðbólgu og verðhækkana, er verðmæti þessara ellefu bensínstöðvalóða 7-8 milljarðar. Við það bætist hugsanlegt atvinnuhúsnæði á jarðhæð og mögulegar tekjur af bílakjallara, ef svo ber undir.
Á móti kemur kvöð um félagslegar íbúðir til að stuðla að blöndun íbúða en söluverð þeirra gæti orðið undir almennu markaðsvirði.
Samið um stórar lóðir
Þessu til viðbótar sömdu Hagar (Olís) og Festi (N1) um uppbyggingu í Rofabæ og Stekkjarbakka. Þar er rætt um á fimmta hundrað íbúðir á 23 þúsund fermetra lóðum.
Jafnframt eru uppi hugmyndir um íbúðir á núverandi bensínstöðvalóðum á Hringbraut 12, Miklubraut 100 og 101 og á Skúlagötu 9. Þær virðist fjarlægari, ekki síst á Miklubraut, enda þyrfti að leggja götuna í stokk til að hægt yrði að reisa þar fjölbýlishús.
Hagkvæmara fyrir borgina
Samningar borgarinnar við olíufélögin hafa vakið athygli. Þá hefur það sjónarmið heyrst að borgin hafi afhent félögunum verðmæti með þessum byggingarheimildum.
Ívar Örn Ívarsson, deildarstjóri lögfræðideildar á skrifstofu borgarstjóra og borgarritara, segir samningana hagkvæma fyrir borgina.
Máli sínu til stuðnings bendir hann á að leigusamningarnir séu gjarnan til langs tíma. Af því leiði að borgin myndi þurfa að greiða bætur fyrir lokun bensínstöðva á samningstímanum.
„Það hljómar kannski illa þegar málinu er stillt upp þannig að borgin sé að afhenda einhver verðmæti en á móti kemur að borgin nær markmiðum sínum um fækkun bensínstöðva og uppbyggingu íbúða,“ segir Ívar.
Lesa má meira um málið í ViðskiptaMogganum í dag.
Heimild: Mbl.is