Hlutfall fyrstu kaupenda íbúða hefur minnkað á síðustu mánuðum, að því er fram kemur í Hagsjá Landsbankans. Nýjum verðtryggðum lánum fjölgar en meirihluti útistandandi íbúðalána alls, óháð lánveitanda, er óverðtryggður.
Hækkandi húsnæðisverð, hærri vextir og þrengri lánþegaskilyrði hafa gert fólki erfiðara um vik að komast inn á fasteignamarkaðinn. Íbúðaverð hefur hækkað um 50% á þremur árum, stýrivextir hafa verið hækkaðir úr 0,75% í 6% á einu og hálfu ári og Seðlabankinn hefur hert þær kröfur sem gerðar eru til nýrra lánþega, bæði hvað varðar veðsetningu og greiðslubyrði.
Eftir því sem vextir hafa hækkað og Seðlabankinn þrengt lánþegaskilyrðin hefur hlutfall fyrstu kaupenda farið lækkandi.
Hlutfall veðsetningar farið lækkandi
Í júní 2021 lækkaði Seðlabankinn 85% hámarksveðsetningarhlutfall í 80% fyrir alla nema fyrstu kaupendur. Ári síðar var það svo einnig lækkað fyrir fyrstu kaupendur, úr 90% í 85%.
Frá miðju ári 2020 fram á þriðja ársfjórðung 2021 hefur þá um 20-25% af fjárhæð lánveitinga til fyrstu kaupenda verið með veðsetningarhlutfall yfir 85%. Hlutfallið hefur þó farið lækkandi síðan, en sérstaklega hratt eftir að reglurnar voru settar.
Heimild: Mbl.is