Home Fréttir Í fréttum Gatnamót Bústaðavegar og Háaleitisbrautar endurgerð í vor

Gatnamót Bústaðavegar og Háaleitisbrautar endurgerð í vor

113
0
Kort af gatnamótum Bústaðar og Háaleitisbrautar

Til stendur að endurgera gatnamót Bústaðavegar og Háaleitisbrautar vorið 2023 og verða aðliggjandi götur og gangstéttir þá aðlagaðar í leiðinni.

<>

Umferðarljós og gatnalýsing verða endurnýjuð ásamt umferðarmerkjum og yfirborðsmerkingum. Til stóð að byrja framkvæmdir á þessu misseri en því var frestað.

Göngu- og hjólastígar aðskildir

Öryggi gangandi og hjólandi vegfarenda um gatnamótin verður bætt verulega með aðskildum göngu- og hjólastígum og endurnýjaðri ljósastýringu. Biðstöðvar strætó verða færðar til og gangbraut yfir götuna endurgerð vegna þrengingar Háaleitisbrautar ofan við Bústaðaveg.

Framkvæmdin er á vegum umhverfis- og skipulagssviðs Reykjavíkurborgar í samvinnu við Veitur. Áætlað er að framkvæmdir hefjist á vormánuðum 2023.

Loka þarf umferð í fáeinar vikur um Háaleitisbraut neðan Bústaðavegar meðan hitaveitulagnir eru endurnýjaðar. Nákvæm tímasetning mun liggja fljótlega fyrir.

Hjáleiðir verða um Áland og Eyrarland og/eða Fossvogsveg á meðan. Að öðru leyti verður opið fyrir umferð um svæðið.

Aðkoma neyðarbíla að LSH Fossvogi verður greið allan framkvæmdatímann.

Raski fyrir íbúa haldið í lágmarki

Framkvæmdir í grónum hverfum valda alltaf einhverju raski hjá íbúum nærliggjandi húsa. Reynt verður eins og kostur er að halda raski í lágmarki en óhjákvæmilega verður eitthvað ónæði af framkvæmdinni fyrir íbúa.

Ef einhverjar spurningar vakna eða íbúar vilja koma ábendingum á framfæri er hægt að hafa samband við þjónustuver Reykjavíkurborgar í síma 411 1111. Einnig er hægt að skoða framkvæmdina í framkvæmdasjá. Verktakinn er Stjörnugarðar ehf.

Bæta umferðaröryggi allra vegfarenda

Þessar aðgerðir snúast meðal annars um öryggisatriði gangandi og hjólandi vegfarenda bæði á gatnamótunum og við gönguþverun yfir Háaleitisbraut.

Aðgerðirnar eiga að draga úr hraða og bæta umferðaröryggi allra vegfarenda. Ekki er talin þörf á því að hafa tvær akreinar í báðar áttir á Háaleitisbraut ofan Bústaðavegar með tillit til umferðarmagns.

Akvegurinn verður með eina akrein í hvora átt þar sem gönguleið þverar götuna. Þar verður aðgengi bætt og öryggi gangandi og hjólandi með tengingu við aðliggjandi stíga eftir Álmgerði og Hæðargarði og RUV reit.

Þar sem loka á framhjáhlaupi í gatnamótum við Bústaðaveg verður Háaleitisbraut einnig þrengd um eina akrein til norðurs, að öðru leyti verður áfram sami akreinafjöldi í aðdraganda gatnamótanna.

Sambærileg aðgerð þrengingar hefur þegar verið gerð á Háaleitisbraut norðan við Austurver í sama tilgangi

Ekki verður átt við akreinafjölda á Bústaðavegi, nema að lögð verða niður tvö framhjáhlaup í gatnamótunum, líkt og gert var á gatnamótum Grensásvegar og Bústaðavegar.

Heimild: Reykjavík.is