Íbúar Laugarneshverfis eru margir hverjir orðnir langþreyttir á hávaða og sprengingum sem berast frá vinnusvæði við Grand Hótel, á svokölluðum Blómavalsreit.
Samkvæmt deiliskipulagi frá Reykjavíkurborg er verið að byggja þar yfir eitt hundrað íbúðir í sex fjölbýlishúsum í kringum inngarð, auk viðbyggingar við Grand Hótel.
Íbúi á svæðinu skrifaði færslu í Facebook hópinn Laugarneshverfi, þar sem hún segist hafa sent formlega ábendingu til Reykjavíkurborgar vegna hávaðans, sem að hennar sögn trufli svefnfrið íbúa, þá sérstaklega um helgar. Reykjavíkurborg hafi svarað.
„Eftirlitsdeild þakkar ábendinguna. Búið er að hafa samband við byggingarstjórann og hann upplýstur um að þær framkvæmdir sem falla undir að vera verulega hávaðasamar, s.s. sprengingar og gröftur, eru ekki heimilaðar um helgar. Hann brást vel við og ætlar að bæta úr þessu,“ segir í svari Eftirlitsdeildar Reykjavíkurborgar.
Fjölmargir þakka málshefjanda fyrir að hafa gengið í málið.
„Vel gert, takk fyrir að hafa samband!“ segir í einni athugasemdinni.
„Þetta var óboðlegt sl. laugardag,“ segir önnur.
Heimild: Frettabladid.is