Stjórn Miðbæjarsamtaka Akraness lýsir yfir óánægju sinni með áformin í grein á Skessuhorni og spyr hvort saga Akraness, þessa mikla íþróttabæjar, sé einskis virði.
Þá kallar hún eftir að bæjarbúar verði hafðir með í ráðum í ákvörðunum um hús bæjarins. Í grein sinni spyr stjórn samtakanna hvort ekki sé kominn tími á að Skagamenn láti í sér heyra.
Sævar Freyr Þráinsson bæjarstjóri segist bera virðingu fyrir sjónarmiðum samtakanna. „Það eru einhverjir íbúar búnir að láta í ljós skoðun sína að þau vilji gjarnan að þetta hús verði gert upp og vilja að þetta sé tekið í gegn,“ segir Sævar.
Sævar segir ekki liggja fyrir hvað komi í stað íþróttahússins. Ekki liggur heldur fyrir hvenær það verður rifið eða þá hvenær hin húsin fjögur verða rifin, en til stendur að rífa meðal annars hús Fjöliðjunnar og síðan fyrrum skrifstofur sementsverksmiðjunnar. Það hús er bæði í eigu Akranesskaupstaðar og ríkisins og beðið er samþykkta hins síðarnefnda á niðurrifi.
En mætti snúa ákvörðunum við, eru úrslitin ráðin?
„Ég auðvitað veit ekkert hvort að það sé hægt að snúa ákvörðunum við á þessari stundu. Þetta er ákvörðun sem er búið að taka núna. Og það er búið að fela starfsfólki bæjarins að undirbúa það að finna aðila til niðurrifs.“
Heimild: Ruv.is