Home Fréttir Í fréttum Framkvæmdir kosta rúman milljarð við nýjan Miðgarð Grindavíkurhafnar

Framkvæmdir kosta rúman milljarð við nýjan Miðgarð Grindavíkurhafnar

117
0

Hafnarstjórn Grindavíkurhafnar fellst á að fylgja eftir verkáætlun Vegagerðarinnar við hönnun á Miðgarði Grindavíkurhafnar en leggur áherslu á að dýpið við áfanga tvö verði 8 metrar í stað 6 metra.
Nú þegar eru mörg skip með heima- höfn í Grindavík með meiri djúpristu en 6 metrar og búast má við að ný skip sem smíðuð verða verði einnig með 6 metra djúpristu eða meira. Einnig eru nefndarmenn í hafnarstjórn Grindavíkurhafnar sammála um það að fara með nýja þilið eins stutt frá gamla þilinu og kostur er. Sigurður A. Kristmundsson, hafnarstjóri Grindavíkurhafnar, segir fyrirhugaðar framkvæmdir við Miðgarð óhemju dýrar. Áætlaður kostnaður nemur rúmum milljarði króna og þar af er hlutur Grindavíkurhafnar um 400 milljónir króna.

<>

Framkvæmdatími er áætlaður þrjú ár en vonast er til að hægt verði að skipta verkinu þannig upp að það hafi sem minnst áhrif á umsvif við höfnina.

Sigurður hafnarstjóri er í viðtali við Sjónvarp Víkurfrétta þessa vikuna þar sem hann ræðir fyrirhugaðar framkvæmdir við Grindavíkurhöfn og fer yfir umfangsmikla starfsemi við höfnina á síðasta ári og horfir til framtíðar.

Í þættinum er meðal annars komið inn á það að höfnin í Grindavík er ekki bara stór útflutningshöfn því um fjórðungur af öllu salti sem flutt er til landsins kemur um Grindavíkurhöfn en árlega eru flutt um 90.000 tonn af salti til Íslands.

Heimild: VF.is