Home Fréttir Í fréttum Landsnet: Undirrita samning við ÍAV um Suðurnesjalínu 2

Landsnet: Undirrita samning við ÍAV um Suðurnesjalínu 2

90
0

 

Landsnet hefur samið við Íslenska aðalverktaka um undirbúningsvinnu vegna byggingar Suðurnesjalínu, 220 kílóvolta (kV) háspennulínu frá Hraunhellu í Hafnarfirði að Rauðamel norðan Svartengis. Í verkinu felst slóðagerð, jarðvinna og bygging undirstaðna. Línan verður rúmir 32 kílómetrar og möstrin 100 talsins. Áætlað er að undirbúningsvinna hefjist um leið og aðstæður leyfa og að verkinu verði lokið fyrir lok september. Áformað er að reisa línuna sumarið 2017 og tengingu ljúki á því ári.

Undirbúningsvinna vegna Suðurnesjalínu 2 var boðin út í september 2015. Sjö buðu í verkið og átti ÍAV lægsta tilboðið að upphæð tæplega 320 milljónir króna en kostnaðaráætlun Landsnets hljóðaði upp á tæplega 390 milljónir.

Útboð á eftirliti með undirbúningsvinnunni hefur einnig farið fram. Verkfræðistofan Hnit var með hagstæðasta tilboðið og hefur verið samið við hana um eftirlit með framkvæmdum við Suðurnesjalínu 2.

Í tilkynningu frá Landsneti segir að Suðurnesjalína 2 sé hluti af verkefninu Suðvesturlínur. Umhverfismat vegna framkvæmdanna hafi verið samþykkt með skilyrðum árið 2009 og í ársbyrjun 2011 hafi verið ákveðið að byrja á styrkingu flutningskerfisins á Suðurnesjum. Suðurnesjalína 1, sem nú þjónar svæðinu og rekin er á 132 kV spennu, er fulllestuð og jafnframt að öryggi kerfisins sé ófullnægjandi þar sem aðeins sé þessi eina tenging frá Reykjanesskaganum við meginflutningskerfi Landsnets.

Framkvæmdaleyfi vegna Suðurnesjalínu 2 liggur fyrir frá sveitarfélögunum Grindavík, Hafnafjarðarbæ, Reykjanesbæ og Vogum og leyfi Orkustofnunar fyrir byggingu og rekstri línunnar. Í ársbyrjun 2014 heimilaði iðnaðar- og viðskiptaráðherra Landsneti að taka landsréttindi á Reykjanesskaga eignarnámi, þar sem samningar höfðu ekki náðst við alla landeigendur, en kröfu um ógildingu eignarnámsheimildanna var hafnað af dómstólum.

Nýja línan mun að miklu leyti fylgja núverandi Suðurnesjalínu 1 frá Hafnarfirði að Rauðamel, nema austast á svæðinu þar sem gert er ráð fyrir að hún liggi í nýju línubelti töluvert fjær núverandi byggð í Hafnarfirði. Orðið verður við tilmælum sveitarfélaga á svæðinu og fagstofnana um að reisa nýju línuna í núverandi mannvirkjabelti, þar sem fyrir eru Suðurnesjalína 1 og Reykjanesbraut.

Heimild: VF.is

Previous article02.02.2016 Akureyri – Hofsbót, breytingar á smábátahöfn
Next articleFramkvæmdir kosta rúman milljarð við nýjan Miðgarð Grindavíkurhafnar