Home Fréttir Í fréttum Eskifjarðarhöfn stækkar

Eskifjarðarhöfn stækkar

116
0
Verið er að byggja nýjan viðlegukant í Eskifjarðarhöfn. Ljósmynd: Þorgeir Baldursson

Nýr viðlegukantur er að taka á sig mynd í Eskifirði en framkvæmdin er á vegum Fjarðabyggðarhafnar og hins opinbera og felur í sér landstækkun upp á 16.000 fermetra.

<>

Hlynur Ársælsson, rekstrarstjóri uppsjávarfrystihúss Eskju, segir að viðlegukanturinn muni breyta miklu fyrir starfsemi Eskju. Stefnt er að því að dýpka við nýja kantinn næsta vor og verður hann þá líklega tekinn í notkun þá um sumarið.

Hafnarsjóður Fjarðabyggðarhafna er sá næst stærsti á landinu  á eftir Faxaflóahöfnum og Norðfjarðarhöfn er stærsta fiskihöfn landsins. Þá eru gríðarleg umsvif í Reyðarfirði í tengslum við álframleiðslu Fjarðaráls í Reyðarfirði auk þess sem útflutningur eldislax hefur vaxið hröðum skrefum.

Á þessu og næsta ári fara um 760 milljónir kr. í hafnarframkvæmdir í Eskifirði því á næsta ári verður stál í gömlu höfninni við miðbæ Eskifjarðar endurnýjað.

Nýi viðlegukanturinn er við fiskiðjuver og nútímalegt uppsjávarfrystihús Eskju.

„Framkvæmdin hefur klárlega mikil og góð áhrif á okkar rekstur. Kanturinn er alveg við hliðina á okkur og einfaldar allt ferlið í kringum útskipanir hvort sem það er mjöl eða frystar afurðir. Hugsunin á bak við þetta var að geta skipað út í svokölluð „bulk“-skip.

Afurðirnar fara þá beint um borð en ekki í gáma. Það eru reyndar tvær hliðar á þessu því þótt það sé dýrara að flytja afurðirnar út í gámum þá er ákveðið hagræði fólgið í því. En nú munum við hafa þennan möguleika og það mun breyta miklu fyrir okkur,“ segir Hlynur.

Taka minni skammta

Eskja hefur eins og önnur sjávarútvegsfyrirtæki í uppsjávarfiski ekki farið varhluta af því ástandi sem hefur skapast í Evrópu vegna stríðsins í Úkraínu.

Allar frystigeymslur eru fullar alls staðar og margir í vandræðum. Vandinn er ekki síst sá að framleiðendur eru mjög hikandi við að senda afurðir sínar beint inn til Úkraínu því Rússar hafa sprengt upp frystigeymslur í landinu, þar á meðal eina í byrjun innrásarinnar þar sem voru nokkur þúsund tonn af afurðum.

Kaupendur í Úkraínu vilja því taka litla skammta inn hverju sinni og það hefur leitt til þessa mikla álags. Hlynur segir sem dæmi um þetta þá sæki núna tveir flutningabílar fisk í frystigeymslur í Klaipeda í hverri viku í stað tíu áður.

Nýja uppsjávarfiskiðjuverið var reist árið 2016 við hlið mjöl- og lýsisvinnslu félagsins. Það afkastar á einum degi álíka miklu og áður tók viku að frysta á sjó.

Afköstin geta farið upp í 750 tonn á dag í makríl þegar best gengur. Þá tók fyrirtækið í notkun nýja frystigeymslu árið 2020 sem er með rými fyrir allt að 9.000 tonn af afurðum. Sú fjárfesting er heldur betur að skila sér í því ástandi sem nú ríkir víða.

Heimild: Vb.is