Sjúkrabíll sótti barnið eftir veru í húsinu
Elín Rún og Valbjörn búa á Eskifirði ásamt börnum sínum en fyrir fjórum árum fór dóttir þeirra, Brynhildur, að veikjast reglulega og fá alvarleg astmaköst. Hún var þá í leikskóla en böndin bárust fljótt að íþróttahúsinu því þangað fór hún reglulega með leikskólanum og líka í barnaafmæli.
„Það var alla vega í eitt eða tvö skipti sem hún fer með sjúkrabíl upp á Norðfjörð. Og veturinn var bara allur þannig. Svo fórum við bara að skrá niður hvað það var sem hún var að gera áður. Daginn áður eða sama dag og þá var hún alltaf í íþróttahúsinu.
Það voru líka oft barnaafmæli í íþróttahúsinu. Svo prófuðum við að biðja leikskólakennarana um að hún færi ekki í íþróttahúsið og slepptum barnaafmælum og þá varð hún ekki lasin,“ segir Elín Rún Sizemore, íbúi á Eskifirði.
Regnvatn myndar blöðrur undir málningu
Eftir þetta var skipt um loftræstikerfi í húsinu en það er ekki eina vandamálið því húsið lekur og sjást rakaskemmdir í veggjum og vísbendingar um myglu í loftinu. Jóhann Valgeir Davíðsson íþróttakennari hefur vakið athygli á málinu og birti meðal annars sláandi myndband þar sem sést hvernig húsið lekur og regnvatn safnast fyrir í blöðrum undir málningunni.
Nú er sonur Elínar orðinn veikur og fær slæm útbrot á hendurnar sem hún tengir líka við íþróttahúsið. „Í sumar voru hendurnar á honum fínar og um leið og skólinn byrjaði þá byrjaði þetta aftur. Þetta verður yfirleitt betra um helgar og versnar svo á þeim dögum sem hann er í íþróttum,“ segir hún.
„Búið að hunsa þetta allt of lengi“
Foreldrar hittust á fundi og sammæltust um að sem flestir tækju börn sín úr íþróttum. „Mér finnst alla vega gott að foreldrar séu að standa saman núna og fara að heimta aðgerðir af því að það er búið að hunsa þetta allt of lengi,“ segir Elín.
„Mér skilst að fótboltinn sé búinn að færa æfingar út og ætli ekki að fara inn fyrr en búið sé að gera eitthvað með húsið. Ég reikna með að fleiri greinar geri það sama eða hreinlega hætti við æfingar,“ segir Valbjörn Júlíus Þorláksson eiginmaður Elínar.
Vatnsrennur ónýtar inni í steyptum veggjum
Fjarðabyggð ætlar að funda með foreldrum, ráðast í myglurannsókn á húsinu og hefur nú látið mynda regnvatnsrennur.
„Og það kemur í ljós að þær eru innsteyptar eins og var nú mikið gert áður og þær eru bara orðnar tærðar og skemmdar þannig að það er núna það sem þarf að bregðast við að koma því í lag og síðan að fara inn í veggi og uppræta þá bleytu sem komin er,“ segir Jón Björn Hákonarson, bæjarstjóri í Fjarðabyggð.
Heimild: Ruv.is