Home Fréttir Í fréttum Viðhaldsþörf og vandamál í mörgum byggingum Landspítala

Viðhaldsþörf og vandamál í mörgum byggingum Landspítala

121
0
Mynd: Kristín Sigurðardóttir - RÚV
Margar byggingar Landspítala eru komnar til ára sinna, segir Jón Hilmar Friðriksson, framkvæmdastjóri þjónustusviðs Landspítala. Ástandsskoðun þeirra sýnir rakaskemmdir eða merki um þær í þremur byggingum.

Nýr Landspítali hefur síðastliðið hálft ár unnið að ástandsskoðun húsakosts Landspítalans og kynntu fulltrúar fyrirtækisins heilbrigðisráðuneytinu og stýrihóp um skipulag framkvæmda við Landspítala niðurstöðuna í síðustu viku. Engar kostnaðartölur eru í samantektinni.

<>

Jón Hilmar Friðriksson framkvæmdastjóri þjónustusviðs Landspítala segir að verkefnið hafi verið fyrsta stigs skoðun á húsunum með áherslu á ástand og hentugleika þeirra. Skýrslan hjálpi til við að forgangsraða viðhaldi og uppbyggingu.

„Svo er þetta líka hluti af innleggi í umræðu hvernig Landspítala reiturinn, Hringbrautarreiturinn, verður byggður upp til framtíðar og hvaða eldra húsnæði verður nýtilegt og þá til hvers,“ segir hann.

Í skýrslu ráðgjafafyrirtækisins McKinseys sem var birt fyrr á árinu segir að ef ekkert verði gert verði þörfin fyrir legurými eftir tuttugu ár um það bil helmingi meiri en nýi spítalinn við Hringbraut getur annað.

Forstjórinn hefur því sagt mikilvægt að nýta aðrar byggingar við Hringbraut með nýja spítalanum, því sumar af tillögum McKinseys komist ekki í gagnið vegna aðstöðuleysis.

Í samantekt nýs Landspítala er talað um rakaskemmdir eða merki þeirra í þremur húsum Landspítalans; Kvennadeildinni við Hringbraut, L-álmu í Landakoti og í húsi Rjóðurs og líknardeildarinnar í Kópavogi.

Þá er talað um að geðdeildarbyggingin við Hringbraut þarfnist viðhalds og athygli. Sama á við um sundlaugarbygginguna við Grensás.

„Það eru margar byggingar okkar komnar mikið til ára sinna. Við vitum af viðhaldsþörf og vandamálum í mörgum byggingum. Það eru einstaka liðir en í stórum dráttum kom þetta okkur ekki á óvart.

Húsnæði geðþjónustunnar bæði á Kleppi og Hringbraut er komið til ára sinna og uppfyllir ekki nútímalega nálgun. Það er þegar komið til skoðunar. Það er kannski það stóra. Fossvogurinn vissum við líka að þarfnast nánari skoðunar.“

Heimild: Ruv.is