Framkvæmdir við nýtt veiðihús fyrir neðra svæðið í Stóru – Laxá í Hreppum hófust með formlegum hætti í gær. Þá tóku Esther Guðjónsdóttir, formaður veiðifélagsins og Finnur B. Harðarson, landeigandi og fulltrúi leigutaka fyrstu skóflustunguna að nýja húsinu.
Gert er ráð fyrir að húsið verði komið í gagnið fyrir næsta veiðitímabili. Húsið er flutt inn í einingum frá Svíþjóð er stefnt að því að öll undirbúningsvinna verði kláruð fyrir mars á næsta ári þegar von er á gámunum.
Húsinu var valin staðsetning stutt frá gamla húsinu, í landi Skarðs. Það er nær brúnni yfir Stóru – Laxá, fyrir þau sem þekkja til.
Húsið er miklu stærra en það sem hefur þjónað veiðimönnum svo vel fram til þessa. Gamla húsið bauð upp á fjögur herbergi og var samtals um 90 fermetrar en nýja húsið er 325 fermetrar og þar er sjö herbergi og eru þau stærri og rúmbetri en var í gamla húsinu og hvert og eitt er búið sér baðherbergi. Esther segir að húsið sé allt hið vandaðasta og bjóði upp á „allt til alls.“
Hún segir að með þessum framkvæmdum nú og frekari byggingum á svæði fjögur í framtíðinni vonist þau til að taka Stóru – Laxá upp á nýtt plan.
Heitur pottur og gufa verða í boði og fullkomið eldhús, enda urðu þær breytingar á fyrirkomulagi í Stóru – Laxá í sumar að svæði þrjú var sameinað neðri svæðum og er stangafjöldi þar nú sex stangir. Þá var að sama skapi tekin upp leiðsögumanna- og fæðisskylda.
„Það er stefnan hjá okkur að bæta vegi og aðgengi að svæðinu, sem var áður svæði þrjú. Það kom í ljós sem við höfum haldið að svæði þrjú var bæði vanmetið og vanveitt og gaf nú mun betri veiði en undanfarin ár. Þar varð fjórföldun á veiði enda var það nú veitt reglulega og með leiðsögumönnum.“
Húsið á efra svæðinu verður áfram í notkun næstu tvö árin að minnsta kosti. En ákveðin hefur verið staðsetning fyrir nýtt veiðihús þar. „Það verður um það bil í kílómeters fjarlægð frá húsinu sem er í dag.
Uppi á ásnum aðeins norðar og þaðan er geggjað útsýni yfir hreinlega yfir allt Suðurland. Þaðan sést líka ofan í gljúfrin og er mjög skemmtileg staðsetning. Við erum að áætla að að verði komið í gagnið eftir tvö til þrjú ár,“ sagði Esther í samtali við Sporðaköst.
Hún upplýsir að seiðabúskapur í ánni hafi í sumar verið með allra besta móti og því lofi framhaldið góðu. Stóra – Laxá gaf mjög góða veiði í sumar og er veiðisumarið 2022 næst besta ár á svæðinu, eða allt frá árinu 2013.
Heimild: Mbl.is