Home Fréttir Í fréttum Bransinn eins og harmonikka

Bransinn eins og harmonikka

197
0
Ivon Stefán Cilia, arkitekt og framkvæmdastjóri T.ark arkitekta. Ljósmynd: Eyþór Árnason

Framkvæmdastjóri T.ark arkitekta líkir rekstri arkitektastofu við að hafa harmonikku í höndunum. Arkitektar finni fyrstir fyrir uppsveiflu í hagkerfinu en þeir finni jafnframt fyrstir fyrir niðursveiflu.

<>

T.ark á rætur sínar að rekja til 1. desember 1940, en þá hófu arkitektarnir Gísli Halldórsson og Sigvaldi Thordarson rekstur á eigin stofu. Stofan verður því bráðum 82 ára. Gísli rak stofuna alveg fram til ársins 2000 og er, rétt eins og Sigvaldi, einn af merkilegustu arkitektum sem Ísland hefur átt,“ segir Ivon Stefán Cilia, arkitekt og framkvæmdastjóri T.ark arkitekta.

Meðal þekktustu verka Gísla eru m.a. Laugardalshöll, Lögreglustöðin í Reykjavík, Hótel Loftleiðir og Tollhúsið. Hann féll frá 98 ára gamall árið 2012. „Gísli var frábær náungi. Ég byrjaði að vinna hjá honum árið 1983 og hef því starfað hjá T.ark í að verða fjóra áratugi.

Maður fékk gott „uppeldi“ hjá Gísla og ég er þakklátur fyrir allt það sem hann kenndi mér. Eitt það mikilvægasta sem hann kenndi mér varðandi reksturinn er að vera aðaldssamur og sýna skynsemi í rekstri. Það má því kannski að mörgu leyti þakka honum fyrir að við erum í hópi Fyrirmyndarfyrirtækja í rekstri.“

Bransinn eins og harmonikka

Ivon segir arkitekta vera fyrsta í röðinni í byggingarbransanum. Þeir séu því fyrstir til að finna fyrir því þegar uppsveifla er í hagkerfinu og jafnframt þeir fyrstu til að finna fyrir niðursveiflu. „Það að reka arkitektastofu er eins og að vera með harmonikku í höndunum.

Annaðhvort er ofboðslega mikið að gera og þá þenst harmonikkan út og svo dregst hún saman þegar blikur eru á lofti í hagkerfinu. Í hruninu var niðursveiflan til að mynda svo brött að á einni viku, í október árið 2008 er allt hrundi, misstu um 60% starfandi arkitekta á Íslandi vinnuna.“ Hann segir þó stöðuna í dag ágæta, þrátt fyrir erfitt ástand í heimshagkerfinu. „Við sjáum engin óveðursský á lofti.“

Starfsfólk T.ark er 28 talsins og segir Ivon það leika lykilhlutverk í góðum rekstri stofunnar. „Til að ná góðum árangri þarf gott starfsfólk, fyrirtækið er ekkert án þeirra. Að sama skapi skiptir okkur miklu máli að eiga í farsælum viðskiptasamböndum við trausta viðskiptavini þar sem gagnkvæmt traust ríkir milli aðila. Við erum einmitt svo heppin að eiga marga góða og trausta viðskiptavini.“

Hönnuðu Edition hótelið og Sky Lagoon

Meðal helstu verkefna sem T.ark hefur nýlega komið að er hönnun The Reykjavik Edition hótelsins við Hörpu, lúxusíbúða við hlið hótelsins í Austurhöfn og húsum Sky Lagoon baðlónsins í Kársnesi í Kópavogi, ásamt um 180 íbúða fjölbýli á svokölluðum Traðarreit í Kópavogi. Ivon segir arkitektastofuna hafa komið að fjölda fjölbreyttra verkefna í gegnum tíðina.

„Við höfum til að mynda komið að jarðvarmavirkjanaframkvæmdum er Hellisheiðarvirkjun og Þeistareykjavirkjun voru reistar. Þessa stundina erum við svo að hanna nokkur mannvirki fyrir Nýja Landspítalann, t.d  bíla- og tæknihús, bílakjallara og nú nýlega unnum við svo samkeppni um hönnun á nýju húsi heilbrigðis- og vísindasviðs Háskóla Íslands, sem er einnig hluti af nýja Landspítalanum.

Þar erum við að vinna undir merkjum TBL Arkitekta sem er í sameiginlegri eigu T.ark, Batterísins og Landslags, en stofurnar sameinuðu fyrir um tveimur áratugum krafta sína vegna hönnunar á álveri Fjarðaáls á Reyðarfirði. Allt frá þessu hefur þessu farsæla samstarfi verið haldið gangandi, aðallega í stærri samkeppnum.“

660 íbúðir í eða á leið í byggingu

Ivon segir íbúðir sem nú eru í eða á leið í byggingu, sem T.ark hefur hannað, vera rúmlega 660 talsins. „Þessar íbúðir eru á mismunandi stigum, allt frá forhönnun yfir í að vera alveg að verða tilbúnar. Allar þessar íbúðir eru ekki að klárast á þessu ári en það má gera ráð fyrir að þær verði allar tilbúnar á næstu tveimur árum.

Það er mikil uppsöfnuð þörf á fleiri íbúðum á íbúðamarkaði. Því þurfa ekki bara byggingarverktakar að spýta í lófana heldur einnig hönnuðirnir, bæði arkitektar og verkfræðingar, svo hægt sé að svara þörfinni sem fyrst.“

Reiknar með svipaðri afkomu í ár

Ivon reiknar með að afkoma yfirstandandi árs verði svipuð og í fyrra. „Afkoman gæti jafnvel orðið ívið betri. Það er útlit fyrir veltuaukningu en það skýrist aðallega af fjölgun starfsmanna og því eykst kostnaður jafnframt á móti.“

Heimild: Vb.is