Home Fréttir Í fréttum Kaupa hluta af lóð BM Vallár á Höfðanum

Kaupa hluta af lóð BM Vallár á Höfðanum

323
0
Þorsteinn Víglundsson er forstjóri Eignarhaldsfélagsins Hornsteins, móðurfélags BM Vallár. Ljósmynd: Gígja Einarsdóttir

Gert er ráð fyrir allt að 1.000 íbúðum auk skrifstofu, verslunar- og þjónusturými á heildarreitnum. Móðurfélag BM Vallár flytur höfuðstöðvarnar í áföngum á næstu 2-6 árum.

<>

Framkvæmdafélagið Höfði ehf. hefur keypt hluta af svæði BM Vallá við Breiðhöfða 3 og Bíldshöfða 7. Samningar við Reykjavíkurborg um íbúðauppbyggingu liggja fyrir og er í takt við fyrirhugaða íbúðabyggð á Ártúnshöfðasvæðinu þar sem uppbygging er að hefjast.

Sé miðað við nýtingarhlutföll í nýlega samþykktu deiliskipulagi á Ártúnshöfða má gera ráð fyrir allt að 1.000 íbúðum auk skrifstofu, verslunar- og þjónusturými á heildarreitnum, að því er kemur fram í tilkynningu.

Eignarhaldsfélagið Hornsteinn, móðurfélag BM Vallá, hyggst færa starfsemi sína af svæðinu í áföngum á næstu tveimur til sex árum. Framkvæmdafélagið Höfði ehf mun í framhaldi af kaupunum leiða deiliskipulagsgerð fyrir BM Vallá svæðið í samráði við Eignarhaldsfélagið Hornstein.

Framkvæmdafélagið Höfði ehf er í jafnri eigu M3 fasteignaþróunar ehf og E3 ehf, en bæði félögin eru í íbúðaruppbyggingu víða á höfuðborgarsvæðinu. Samkvæmt fyrirtækjaskrá Skattsins á Örn Valdimar Kjartansson helmingshlut í Framkvæmdafélaginu Höfða og Magnús Magnússon fer með 26,3% hlut.

Örn V. Kjartansson, eigandi M3 fasteignaþróunar:

„Lóð BM Vallá á Ártúnshöfða er einstök lóð til að skipuleggja íbúðarbyggð. Með Fornalund gróin skrúðgarð í miðju svæðinu gefst tækifæri á að þróa vistvæna byggð sem stendur hátt uppi á Ártúnshöfða með útsýni yfir borgina. Framkvæmdir við fyrsta áfanga gætu hafist eftir tvö ár.”

Þorsteinn Víglundsson forstjóri Hornsteins:
„Samningurinn við Höfða markar þáttaskil í starfsemi BM Vallá ehf. Félagið hefur um áratuga skeið starfrækt steypustöð og margvíslega aðra starfsemi á Ártúnshöfðanum en nú hefur fyrsta skrefið í endurstaðsetningu starfseminnar verið stigið.

Ártúnshöfðinn er spennandi uppbyggingarsvæði fyrir íbúðarbyggð og það er ánægjulegt að sjá Fornalund, sem BM Vallá hefur lagt metnað sinn í að vernda í gegnum áratuga veru sína á svæðinu, fá nýtt hlutverk í hjarta fallegrar íbúðabyggðar.”

Heimild: Vb.is