Home Fréttir Í fréttum Hótelbygging á Flæðunum tekin til deiliskipulagsmeðferðar

Hótelbygging á Flæðunum tekin til deiliskipulagsmeðferðar

195
0
Mynd/Stoð ehf.

Skipulags- og byggingarnefnd Svf. Skagafjarðar hefur samþykkt að taka hótelbyggingu, á Flæðunum við Faxatorg á Sauðárkróki, til deiliskipulagsmeðferðar. Það er fyrirtækið Hymir ehf. sem hefur sótt um lóð undir hótelbygginguna en áform eru uppi um að reisa þar 60 til 80 herbergja hótel. Sömu aðilar standa á bakvið framkvæmdir við Gönguskarðsá en Hymir ehf. og Íslandsvirkjun eru hvor tveggja í eigu Ölnis ehf.

<>

Að sögn Péturs Bjarnasonar, forsvarsmann Hymis ehf., er fyrirtækið að skoða möguleikann á því að reisa þriggja stjörnu hótel á Flæðunum, sem yrði á bilinu 2600-3000 fm2, en umrætt hótel myndi yrði svokallað „rútuvænt“ hótel, 60-80 herbergja á fjórum hæðum.

„Við, og þeir aðilar sem við erum að viðræðum við, teljum að þetta komi til með að auka túrisma á svæðinu. Þeir aðilar eru með hótelkeðju á Íslandi og þetta yrði nýr áfangastaður fyrir ferðamenn, sem væru ella annarsstaðar, yfir mesta ferðamannatímann. Með þessu getum við vonandi aukið túrismann í Skagafirði,“ sagði Pétur í samtali við Feyki. Hann sagði að verið sé að vinna í því að fá rekstaraðila en að ekkert sé í hendi að svo stöddu.

Pétur segir stefnu fyrirtækisins að nýta starfskrafta heimamanna eins og hægt er, líkt og gert hefur við byggingu Gönguskarðsárvirkjunar. Það er verkfræðistofan Stoð ehf. sem kemur að framkvæmd og hönnun hótelsins.

Heimild: Feykir.is