Home Fréttir Í fréttum Flytur í desember – óvíst með gamla húsið

Flytur í desember – óvíst með gamla húsið

226
0
Mynd: RÚV - Þór Ægisson / RÚV
Stutt er í að Landsbankinn flytji sig um set í miðbænum í Reykjavík. Ríkið vill kaupa gamla bankahúsið. Óvíst er hvaða hlutverki glæsilegur aðalsalur bankans í Austurstræti á eftir að gegna. Bankastjóranum finnst að almenningur eigi að fá að njóta hans.

Úr Bakarabrekku í Austurstræti

Landsbankinn var stofnaður 1886 og var fyrst til húsa þar sem nú er verslunin Stella. Gatan hét Bakarabrekka en eftir að bankinn var kominn þangað var nafninu breytt í Bankastræti.

<>

Árið 1898 flutti bankinn á sinn stað við Austurstræti 11. Eftir að bankinn brann í miðbæjarbrunanum 1915 þannig að útveggir hans stóðu einir eftir fékk hann brátt inni í húsinu á móti þar sem nú er Apótekið. 1924 var aftur flutt í endurbyggt og stækkað gamla húsið.  Húsið hefur lítið breyst séð frá sumum sjónarhornum í Austurstræti. Enn stækkaði bankinn og byggt við hann í nútímalegum stíl. Nú er hann á um sextán þúsund fermetrum í miðbænum. Á vef bankans er grein eftir Pétur H. Ármannsson arkitekt um sögu húsa bankans sem nefnist Bankinn í miðbænum: Úr Bakarabrekku í Austurstræti.

Ekki er síður fagurt um að litast á 2. hæð gamla bankahússins. Mynd: RÚV – Þór Ægisson – RÚV

Glæsilegur salur með fáum starfsmönum

Aðalsalur Landsbankans með veggmynd Jóns Stefánssonar er með glæsilegri sölum landsins og hefur verið það frá 1924 þegar ábúðarmiklir bankafulltrúar voru við afgreiðslu. Salurinn er hálftómur núna með örfáa starfsmenn í einu horninu en brot af listaverkum bankans er þar nú til sýnis.

Hvað sérð þú fyrir þér að verði hér í þessum glæsilega gamla sal þegar þið flytjið?

„Ég kannski hef ekki alveg fullt vald til að velja það. En við höfum nýtt þennan sal mikið sem almenningsrými,“ segir Lilja Björk Einarsdóttir bankastjóri Landsbankans.


Mynd: RÚV – Þór Ægisson – RÚV

Nærri 500 verk þjóðareign

Á efri hæðum bankans er ekki síður fallegt og þar má sjá nokkur af tæplega 3000 málverkum bankans. 460 þeirra hafa verið úrskurðuð þjóðareign og 270 þjóðinni aðgengileg. Bankinn má ekki ráðstafa verkunum án samráðs við Listasafn Íslands. Eftir tvo mánuði byrjar bankinn að flytja hingað í Austurhöfn, tíu þúsund fermetra nýbyggingu.

Hvenær lýkur flutningunum?

„Við bara flytjum á svona tiltölulega stuttum tíma. Þetta verður að gerast í desember og janúar.“


Mynd: RÚV – Þór Ægisson – RÚV

Keypti af bankanum með arðgreiðslu frá bankanum

Ríkið hefur keypt norðurbygginguna af Landsbankanum, nærri sex þúsund fermetra. Þangað flytur utanríkisráðuneytið og íslensk samtímalist verður til sýnis á fyrstu hæð. Kaupverð er sex milljarðar. Ríkið á Landsbankann og greiðir fyrir húsið með viðbótararðgreiðslu frá bankanum. Sem sagt bankinn borgar ríkinu og ríkið borgar bankanum peninginn til baka.

Langar að almenningur fá að njóta gamla hússins

Ríkið ætlar nú að semja við bankann um að kaupa gamla Landsbankahúsið. Byggingunni verður fundið verðugt hlutverk, segir í tilkynningu frá stjórnarráðinu, til að mynda undir starfsemi dómstóla. Mest spennandi er hvaða starfsemi verður þar í salnum fagra.

„Persónulega auðvitað finnst okkur þetta frábært húsnæði til þess að almenningur fái að njóta. Við erum búin að vera hérna í 100 ár tæp. Og þetta húsnæði hefur verið alltaf svona hluti af bæjarlífinu og bæjarmenningunni og ásýndinni. Þannig að mér þykir þetta persónulega mjög gott skref hjá ríkinu.“

Heimild: Ruv.is