Home Fréttir Í fréttum Þverá veitt um botnrás á dag

Þverá veitt um botnrás á dag

202
0
Mynd: Austurfrett.is

Útlit er fyrir að hægt verði að keyra nýja virkjun í Þverá í Vopnafirði á fullum afköstum mánuði fyrr en upphaflega var áætlað. Framkvæmdir við stöðvarhús og aðrennslispípu er að ljúka en uppbygging jarðvegsstíflu að fara á fullt.

<>

„Inntaksmannvirki svo sem botnrás, inntaksstokkur og inntakshús klárast í næstu viku. Á morgun verður ánni veitt í gegnum botnrásina og þá er hægt að klára að þétta bergið þar sem áin rennur núna,“ segir Skírnir Sigurbjörnsson, framkvæmdastjóri Arctic Hydro sem reisir virkjunina.

Mynd: Austurfrett.is

Þverá kemur úr vestanverðum Smjörfjöllum og rennur um 19 km leið í Hofsá. Skammt frá ármótunum er stöðvarhús nýju virkjunarinnar. Bygging þess er á lokametrunum og á það að vera fullklárað fyrir mánaðamót

Innanhúss er verið að ljúka við að setja vél- og rafbúnað. Búið er að leggja rafstreng út á Vopnafjörð og er verið að ganga frá tengingum hans við stöðvarhúsið og tengivirki. Stefnt er að því að prufukeyra búnaðinn um miðjan október. „Við getum sett vatn á þrýstipípuna til að prófa búnaðinn,“ útskýrir Skírnir.

Mynd: Austurfrett.is

Stíflugerðin sjálf að hefjast

Pípan sú, sem flytur vatn úr miðlunarlóninu niður í stöðvarhúsið er um 5,4 km löng. Hún liggur að mestu meðfram vegi sem lagður var á milli þessara tveggja staða og er tilbúin að öðru leyti að eftir er að tengja hana við inntaksmannvirkin.

Stíflustæðið sjálft er í um 250 metra hæð og fæst um 200 metra fallhæð á leiðinni. Þar er að hefjast steypuvinna við yfirfallið sem og uppbygging stíflunnar sjálfrar. Hún verður um 18 metra há þar sem hún rís hæst og á bakvið hana myndast miðlunarlón, tæpir tveir hektarar að stærð upp á 60 þúsund rúmmetra.

„Allur krafturinn núna verður settur í að klára stífluna fyrir veturinn. Þetta verður hefðbundin jarðvegsstífla. Við notum leir sem er á svæðinu sem kjarnaefni í hana. Þetta er gott efni og mikið af því. Við viljum vera búnir með hana fyrir nóvember og vera komin í full afköst um miðjan þann mánuð. En síðan getur alltaf skollið á harkalegur vetur þannig við náum ekki að klára framkvæmdir fyrr en næsta sumar,“ segir Skírnir.

Mynd: Austurfrett.is

Mikil umsvif á Vopnafirði

Samið var við landeigendur um rannsóknir á svæðinu árið 2017 og fór virkjunin í gegnum fullt umhverfismat. Framkvæmdir hófust í maí í fyrra og var unnið á fullum afköstum fram í miðjan maí þegar hætta varð vegna veðurs. Aftur var farið af stað nú í maí og verið unnið af fullu síðan. Upphaflega stóð til að virkjunin næði fullum afköstum fyrir jól þannig að miðað við núverandi stöðu er verkið um mánuði á undan áætlun.

Að jafnaði hafa 30-40 starfsmenn unnið við gerð virkjunarinnar þegar mest hefur verið. Kostnaður við virkjunina er um 2,2 milljarðar og fer stór hluti hans í kaup á vinnu og þjónustu úr næsta nágrenni.

„Búnaðurinn kostaði um 500 milljónir þannig það eru um 1700 milljónir sem fara um hendur verktaka og þjónustuaðila í Norðausturkjördæmi. Margir þeirra eru frá Vopnafirði til dæmis Hótel Tangi, Síreksstaðir, Steiney, Húsgrund og Strákatindur. Verkið hefur gengið mjög vel og við erum mjög ánægð með þessa aðila.“

Mynd: Austurfrett.is

Þörf á annarri raflínu til Vopnafjarðar

Virkjunin getur framleitt 6 MW sem Skírnir segir að muni styrkja verulega raforkuöflun á Vopnafirði þótt fleira þurfi að koma til í framtíðinni. „Virkjunin tengist inn á dreifikerfi Rarik og þaðan fer rafmagnið hér um nærsveitir. Ef orkunotkun hér er lítil þá getur hún flætt yfir Hellisheiðina í átt að Lagarfossi.

Vopnafjörður fær aðeins orku úr einni átt og til að búa hér til samkeppnishæft svæði til framtíðar þarf að koma til tenging úr annarri átt. Ef tengingin slitnar þá þarf að keyra hér á varaafli. Rarik áætlar að þegar mest lætur hér, bræðslan er á fullu og annað með, þá sé orkunotkunin um 18 MW. Virkjunin er búin til eyjakeyrslu og getur annað hvort stutt við kerfið hér eða tekið eyjuna alveg yfir ef á þarf að halda en það þarf meira til en hennar 6 MW.“

Heimild: Austurfrett.is