Home Fréttir Í fréttum Betra að byggja yfir tengivirkin

Betra að byggja yfir tengivirkin

129
0
Mynd: Austurfrett.is

Því var fagnað á Eskifirði nýverið að nýtt tengivirki hefur verið tekið þar í notkun. Tengivirkið er innanhúss og notast við stafrænan stjórnbúnaði í takt við nýja stefnu Landsnets.

<>

„Á Íslandi eru vond veður með mikilli áreynslu og þar af leiðandi viðhaldi á tengivirkjunum. Þegar líftímakostnaður þeirra er reiknaður er niðurstaðan sú að hagkvæmara er að byggja yfir þau. Það er líka öruggara,“ segir Guðmundur Ingi Ásmundsson, forstjóri Landsnets.

Mynd: Austurfrett.is

Hann segir fyrirtækið hafa markað sér þessa stefnu fyrir nokkrum árum og nú sé búið að byggja yfir um 60% tengivirkjanna. Áfram verði haldið með að jafnaði tvö tengivirki á ári þannig þau verði öll komin undir þak innan 20 ára.

Guðmundur Ingi segir miðað við að húsin séu látlaus og snyrtileg þannig þau falli vel inn í umhverfi sitt. Fleiri áskoranir bætast við þegar tengivirkin eru ofan í íbúabyggð eins og á Eskifirði.

„Það getur heyrst í búnaðinum þannig við þurfum að gæta að því. Hér eru hljóðvarnir í kringum spennana. Við þurfum líka að huga að snyrtimennsku við svæðið og nýta plássið á lóðinni vel. Við viljum síður hafa loftlínur inn í íbúabyggð og þess vegna eru línurnar sem liggja að tengivirkinu settar í jörð síðasta hálfa kílómetrann eða svo,“ útskýrir hann.

Mynd: Austurfrett.is

Leiðandi í stafrænni tækni

Tengivirkið tilheyrir líka nýrri kynslóð með stafrænni tækni en þar hefur Landsnet tekið forustu á heimsvísu. „Stjórnbúnaðurinn byggir á stafrænni tækni sem Landsnet er í raun fyrsta fyrirtækið á heimsvísu til að nota skipulega.

Við tókum þessa ákvörðun fyrir nokkrum misserum og erum nú komin með tíu tengivirki með þessum búnaði. Vandamálin hafa verið minni en við bjuggumst við en reksturinn talsvert hagkvæmari. Þess vegna eru önnur orkufyrirtæki farin að fylgja í okkar fótspor.“

Mynd: Austurfrett.is

Búið að bæta kerfið eystra verulega

Landsnet fagnar því einnig um þessar mundir að 50 ár eru síðan byggðalínunni var lokað hringinn í kringum landið. Á vegum fyrirtækisins hafa verið miklar framkvæmdir á Austurlandi svo sem jarðstrengur á Hellisheiði, ný byggðalína milli Kröflu og Fljótsdalsstöðvar auk miklar styrkingar í næsta nágrenni við nýja tengivirkið.

„Það var lögð ný lína til Norðfjarðar, jarðstrengur alla leið í gegnum göngin, 17,6 km að lengd. Yfir Oddsskarð liggur loftlína sem við munum halda við þannig nú er komin tvöföld tenging til Norðfjarðar.

Við höfum verið að vinna í ýmsum málum hér svo sem tengivirkjum, hringtengingum staða og jarðstrengjum til að auka öryggið.

Við höfum líka hækkað spennu á línum sem fyrir voru hingað niður á firði. Það tvö- til þrefaldar flutningsgetuna og er mikilvægt skref til að styðja við þá uppbyggingu sem verið hefur hér á vegum sjávarútvegsfyrirtækjanna.“

Heimild: Austurfrett.is