Nýtt hjúkrunarheimili á Húsavík sem átti að kosta 2,2 milljarða mun kosta rúma 5,3 samkvæmt nýrri áætlun. Aukin hlutdeild hefur verið sett á sveitarfélögin og hefur þeirra kostnaður fjórfaldast.
Sveitarfélögin í Þingeyjarsýslum sjá fram á stökkbreytingu kostnaðar vegna nýs hjúkrunarheimilis á Húsavík. Það er ríkið sem sér um verkkaupin. Verkefni sem átti að kosta sveitarfélögin 330 milljónir árið 2019 stefnir nú í 1,2 milljarða króna og byggingin sjálf er ekki hafin.
„Við eigum eftir að fara í frekari samtöl við ráðuneytið út af þessu,“ segir Hjálmar Bogi Hafliðason, forseti sveitarstjórnar og oddviti Framsóknarflokksins. Þegar hann sat í minnihluta sveitarstjórnar gagnrýndi hann skiptingu kostnaðar, en eftir sveitarstjórnarkosningarnar í vor er hann kominn í meirihluta.
Í febrúar árið 2019 sömdu sveitarfélögin Norðurþing, Tjörneshreppur, Þingeyjarsveit og Skútustaðahreppur við heilbrigðisráðuneytið um uppbyggingu nýs 60 rýma hjúkrunarheimilis á Húsavík. Átti það að leysa eldra húsnæði, Hvamm, af hólmi en það þótti ekki uppfylla nútímakröfur. Áætlað var að heildarkostnaður yrði 2,2 milljarðar og sveitarfélögin myndu greiða 15 prósent, eða 330 milljónir króna.
Miðað við þetta var kostnaður Norðurþings um 250 milljónir, Þingeyjarsveitar og Skútustaðahrepps (sem hafa nú sameinast) um 76 milljónir og Tjörneshrepps, sem telur 60 íbúa, 3 milljónir.
Kostnaðaráætlunin hefur hins vegar rokið upp, nú síðast um þriðjung, og í dag stendur verkið í rúmum 5,3 milljörðum króna. Það eina verklega sem hefur verið framkvæmt er jarðvinnan, það er að grafa stóra holu fyrir grunninn norðan við Hvamm sem kostaði nokkra tugi milljóna króna.
Stór breyting fyrir sveitarfélögin er að hlutur þeirra hefur hækkað úr 15 prósentum í rúmlega 23. Það er að sveitarfélögin eru látin greiða tengibyggingu úr nýja hjúkrunarheimilinu yfir í Hvamm og Heilbrigðisstofnun Norðurlands þar sem eldhúsið er.
„Eins og staðan er í dag eiga sveitarfélögin að borga tengiganginn að fullu, sem ég hef gagnrýnt,“ segir Hjálmar. „Mér finnst óeðlilegt að sveitarfélögin séu að kosta þetta.“
Lauslega reiknað er kostnaður sveitarfélaganna því kominn upp í rúmlega 1,2 milljarða króna. Þar af um 935 milljónir á Norðurþing, 283 á Þingeyjarsveit og rúmar 12 á Tjörneshrepp. Þetta er um fjórföld kostnaðaraukning frá upprunalegu áætlununum og hækkunin sjálf í kringum 200 þúsund krónur á hvern íbúa í sveitarfélögunum.
Hin nýja kostnaðaráætlun ráðuneytisins fer núna fyrir samræmingarnefnd um opinberar framkvæmdir. Hjálmar býst við að útboð geti hafist í kringum áramótin. Þrátt fyrir þessar miklu hækkanir sé enn hugur í sveitarstjórnarfólki að hefjast handa. „Sveitarfélögin eru öll sammála um að halda áfram með þetta verkefni.“
Svör hafa ekki borist frá heilbrigðisráðuneytinu við fyrirspurn Fréttablaðsins.
Heimild: Fréttablaðið.is